Jóhanna íhugar áskoranir

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að áskoranir sem hún hefur fengið um að gefa kost á sér sem formaður Samfylkingarinnar, hafi komið henni mjög á óvart. Segist hún telja, að sér beri skylda til að íhuga málið en ætlar ekki að gefa því langan tíma.

Jóhanna lýsti því yfir sl. sunnudag að hún ætlaði ekki að bjóða sig fram í embætti flokksformanns en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsti því yfir við sama tækifæri að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri á flokksþingi Samfylkingarinnar í lok mars.

„Þessi mikla hvatning mun auðvitað verða til þess að ég mun íhuga málið en ég sé samt ekki að staðan muni neitt breytast. Mér finnst bara að ég hafi þær skyldur við þetta fólk sem er að hvetja mig um allt land, að a.m.k. að gefa þessu gaum og íhuga málið en ég sé ekki að það muni breyta neinu. Ég er afar þakklát fyrir þann mikla stuðning sem ég finn við það að ég gefi kost á mér til formanns, sem er raunverulega um allt land," sagði Jóhanna á fréttamannafundi nú eftir hádegið.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina