66% vilja nýjan forseta

66% vilja að nýr forseti verði kjörinn í sumar.
66% vilja að nýr forseti verði kjörinn í sumar. Ómar Óskarsson

Rétt tæp 34% þeirra sem tóku afstöðu í nýrri könnun Capacent Gallup um forsetaefni vildu helst sjá Ólaf Ragnar Grímsson gegna embætti forseta Íslands áfram. Rúm 66%, eða nærri tveir af hverjum þremur, vilja að nýr forseti verði valinn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá hópnum Betri valkost á Bessastaði.

Þrjár konur voru oftast nefndar sem þeir valkostir sem fólk vildi helst fá í staðinn fyrir sitjandi forseta. Þetta eru þær Þóra Arnórsdóttir, Elín Hirst og Salvör Nordal. Næstir á eftir komu Páll Skúlason, Stefán Jón Hafstein og Þórólfur Árnason.

Alls völdu 30,3% þeirra sem nefndu a.m.k. einn valkost í könnuninni Þóru sem sitt fyrsta, annað eða þriðja val, en 41,5% þeirra völdu Ólaf í eitthvert sæti. Þá völdu rúmlega 22% Elínu Hirst og tæplega 19% Salvöru Nordal sem sitt fyrsta til þriðja val. Aðrir sem spurt var um í könnuninni voru valdir í eitthvert sæti af um 17% eða færri.

„Samkvæmt þessu virðist fjöldi frambjóðenda geta ráðið mestu um það hvort núverandi forseti haldi velli eða ekki. Þá vekur það athygli að 83% af þeim sem svöruðu tóku afstöðu,“ segir í fréttatilkynningu.

Þátttakendur í könnuninni voru beðnir að velja sinn fyrsta, annan og þriðja valkost sem næsta forseta landsins. Könnunin fór fram dagana 15.-23. mars 2012. Spurt var: Hvert eftirtalinna myndir þú helst vilja sjá sem forseta Íslands?

 Svarhlutfall var 62,8% og úrtaksstærð 1.346 einstaklingar af öllu landinu, 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr viðhorfshópi Capacent Gallup. Könnunin var gerð fyrir hópinn Betri valkost á Bessastaði, sem stofnaður var fyrr í þessum mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina