Efna til forsetakosninga á netinu

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor.
Gunnar Helgi Kristinsson prófessor. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ný vefsíða og rannsókn um forsetakosningarnar á vegum Gunnars Helga Kristinssonar og Indriða H. Indriðasonar, stjórnmálafræðinga, hefur verið sett á laggirnar. Markmiðið með þessu er að kanna hug kjósenda með mismunandi kosningaaðferðum.

Vefsíðan verður opin frá og með deginum í dag og verða niðurstöður kosninganna birtar daginn eftir úrslit forsetakosninganna, en þær fara fram 30. júní.

Kosningar eru hornsteinn lýðræðis og vilja Gunnar og Indriði athuga hvort það skipti máli hvaða kosningakerfi er notað, og hvort einhver aðferðanna sé öðrum betri.    Kosningareglur hafa margvísleg áhrif á stjórnmál og stjórnmálahegðun og sýnt hefur verið fram á að kosningakerfi hafa ekki aðeins áhrif á niðurstöðu kosninga, heldur einnig á t.d. fjölda frambjóðenda, kosningaþátttöku og atferli stjórnmálamanna í kosningabaráttunni.

Lönd heimsins búa við mismunandi kosningakerfi og hafa menn lengi deilt um hver sé besta aðferðin. Á Íslandi er forseti t.a.m. kjörinn með einfaldri meirihlutakosningu í einni umferð, jafnvel þó að hlutfall atkvæða hans sé undir 50%. Á Frakklandi er það hins vegar þannig að ef enginn frambjóðandi hlýtur meira en helming atkvæða í fyrri umferð er haldin önnur umferð, þar sem kjósendur kjósa á milli þeirra tveggja frambjóðenda sem flest atkvæði hlutu í fyrri umferðinni. Þetta kerfi er kallað meirihlutakosning með tveimur umferðum. Athyglisvert er að benda á að François Bayrou, frambjóðandi demókrataflokksins í Frakklandi í forsetakosningunum árið 2012, hefði samkvæmt skoðanakönnunum unnið alla aðra frambjóðendur í annarri umferðinni, hefði hann komist þangað.

Kynna til sögunnar tvö kosningakerfi

Gunnar og Indriði kynna til sögunnar tvö kosningakerfi sem gefa kjósendum aukið færi á að veita nánari upplýsingar um hversu vel þeim líkar við frambjóðendur. Fyrra kerfið kallast samþykktarkosning krossakerfið og gengur út á að kjósendur velja eins marga frambjóðendur og þeir vilja án þess að raða þeim á nokkurn hátt. Með samþykktarkosningu gefur kjósandinn til kynna hvaða frambjóðanda hann styður eða treystir. Sigurvegari kosninganna er sá frambjóðandi sem fær flest samþykktaratkvæði og nýtur þannig stuðnings eða trausts flestra kjósenda. 

Hið síðara kallast stigakerfi og gengur út á að kjósendur gefa frambjóðendum stig. Margar útgáfur eru til af kerfinu, en sú sem Gunnar og Indriði styðjast við gefur kjósendum færi á að gefa hverjum frambjóðanda allt að fimm stig, en því til viðbótar hefur kjósandinn færi á að taka eitt stig frá hverjum frambjóðanda. Sigurvegari þeirra kosninga er sá sem hlýtur flest stig. 

Áhugasömum um netkosninguna er bent á að fara á slóðina forseti.politicaldata.org.

mbl.is