Kröfu Blindrafélagsins hafnað

Blindum er gert að hafa fulltrúa kjörstjórnar sér til fulltingis ...
Blindum er gert að hafa fulltrúa kjörstjórnar sér til fulltingis í kjörklefa. Ernir Eyjólfsson

Innanríkisráðuneytið hefur svarað kröfu Blindrafélagsins um að blindum verði heimilt að kjósa í einrúmi með aðstoð fulltrúa að eigin vali í yfirstandandi forsetakosningum. Var kröfunni hafnað á þeim grundvelli að lög stæðu í vegi fyrir því að framkvæma megi kosningarnar með þeim hætti sem Blindrafélagið legði til.

Vekur ráðuneytið sérstaklega máls á því að með ákvörðun Hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings hafi sérstaklega verið tekið fram að það væri ekki á færi stjórnvalda að víkja frá skýrum fyrirmælum laga um framkvæmd kosninga sem kveður á um að  aðeins fulltrúi kjörstjórnar megi vera blindum til aðstoðar í kjörklefa. Það fyrirkomulag telur Blindrafélagið vera brot á mannréttindum blindra. 

Fram kemur í tilkynningu á heimasíðu Blindrafélagsins að stjórn þess sé ósammála niðurstöðu ráðuneytisins, „er það afstaða Blindrafélagsins að slíkur réttur rúmist innan núverandi löggjafar. Réttur fatlaðs fólks til að kjósa í einrúmi er persónulegur réttur þeirra sem einstaklinga og það er því þeirra að ráðstafa þeim rétti eftir bestu vitund. Sé það hins vegar niðurstaða ráðuneytisins að lög standi í vegi fyrir því má ljóst vera að slík lög eru að engu hafandi enda í andstöðu við fortakslaus mannréttindi um sama efni. Slík lög eru að engu hafandi og að vettugi virðandi,“ segir enn fremur í tilkynningunni. 

Blindrafélagið gerir þá kröfu til Alþingis Íslendinga að þingið breyti kosningalögum í þá veru að tryggt verði að mannréttindi þeirra sem þurfa aðstoð við þátttöku í leynilegum kosningum verði virt og í samræmi við ákvæði í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Tengd frétt: Gera athugasemd við utankjörfundakosningu. 

mbl.is