Alþýðufylkingin sækir um listabókstaf

Alþýðufylkingin hyggst standa að framboði í öllum kjördæmum í kosningunum …
Alþýðufylkingin hyggst standa að framboði í öllum kjördæmum í kosningunum til Alþingis í vor. mbl.is/Ómar

Alþýðufylkingin mun kl. 14 í dag afhenda innanríkisráðuneytinu umsókn um listabókstaf ásamt undirskriftum yfir 300 kosningabærra Íslendinga til stuðnings umsókninni.

Fram kemur í tilkynningu, að Alþýðufylkingin hyggist standa að framboði í öllum kjördæmum í kosningunum til Alþingis í vor til að vinna að róttækri stefnubreytingu í íslenskum stjórnmálum í þágu alþýðunnar.

Í drögum að stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar segir að flokkurinn sé baráttutæki íslenskrar alþýðu til að bæta hag sinn með því að heimta sitt úr höndum auðstéttarinnar. Til þess sé nauðsynlegt að efla lýðræði, pólitískt og efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og vinda ofan af markaðsvæðingu sem hafi aukist á flestum sviðum undanfarna áratugi.

„Alþýðufylkingin berst skilyrðislaust gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, NATO og öðrum bandalögum heimsvaldasinna. Alþýðufylkingin beitir sér gegn óheftum fjármagnsinnflutningi til landsins og hvers konar skerðingu á fullveldi þjóðarinnar. Einnig styður Alþýðufylkingin baráttu annarra þjóða fyrir eigin fullveldi og gegn hvers konar arðráni og kúgun. Ísland á að beita sér í þágu friðar og réttlætis á alþjóðavettvangi,“ segir í drögum að stefnuskrá flokksins.

mbl.is