„Forseti standi utan fylkinga“

Guðni Th. Jóhannesson, lektor í sagnfræði og forsetaframbjóðandi.
Guðni Th. Jóhannesson, lektor í sagnfræði og forsetaframbjóðandi. mbl.is/Golli

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og forsetaframbjóðandi, segir að hann muni á næstunni ferðast um landið og hitta fólk og spjalla við það til að lýsa sinni skoðun á embættinu. Segist hann ánægður með niðurstöðu könnunar sem birt var í Fréttablaðinu í morgun, en þar fékk hann 38% fylgi á móti 45% fylgi Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. „En betur má ef duga skal,“ segir Guðni og segir verk að vinna framundan.

Klukkan tvö í dag mun hann tilkynna framboð sitt í Salnum í Kópavogi, en hann staðfestir við mbl.is að undirskriftasöfnun vegna embættisins muni hefjast samhliða þeirri kynningu.

Aðspurður hvort hann muni tilkynna um ákveðin málefni sem hann ætli að beita sér fyrir segir Guðni að hans sýn á embættið sé ekki að forseti eigi að berjast fyrir ákveðnum málstað. „Mín sýn er að forseti standi utan fylkinga í átakamálum samtímans. Fólkið í landinu á að finna að forsetinn sé ekki í einni fylkingu frekar en annarri, en að hann verði fastur fyrir þegar á þarf að halda og leiði mál til lykta þegar þau komast í öngstræti,“ segir Guðni og bætir við að þjóðin eigi að hafa síðasta orðið í stærstu málunum. „Forsetinn er fyrst og fremst málsvari allra Íslendinga,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert