Ástþór kærir Láru Hönnu

Ástþór Magnússon og Sverrir Stormsker á fundi með frambjóðendum og …
Ástþór Magnússon og Sverrir Stormsker á fundi með frambjóðendum og umboðsmönnum þeirra í innanríkisráðuneytinu í gær. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ástþór Magnússon, forsetaframbjóðandi, hefur lagt fram kæru til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á hendur Láru Hönnu Einarsdóttur, stjórnarmanni í stjórn Ríkisútvarpsins, vegna ummæla sem hún lét falla á Facebook-síðu sinni fyrr í þessum mánuði.

Í Facebook-færslunni sem um ræðir segist Lára Hanna hafa hlustað á viðtal við Ástþór Magnússon sem hafi verið svo makalaust að hún „ýmist hló eða hvæsti“. Segir Ástþór að þar sem Lára Hanna sitji sem fulltrúi almennings í stjórn ríkisfjölmiðla beri hún sérstakar skyldur hvað varðar hlutlægni í aðdraganda kosninga.

„Ekki er við hæfi að þeim sem falin hefur verið umsjón og eftirlit með yfirstjórn ríkisfjölmiðla landsins segi forsetaframbjóðanda „óvandaðan“. Eða segi að viðtal við forsetaframbjóðanda sé „makalaust“ og að forsetaframbjóðandi sé með „skítadreifingu“. Um er að ræða ærumeiðingar,“ segir í kæru Ástþórs.

Missa ekki málfrelsið þó að þeir taki sæti í stjórn

Lára Hanna hafði ekki heyrt af kærunni þegar mbl.is náði tali af henni símleiðis nú seinni partinn. Hún segir þetta vera fyndið mál. „Stjórnarmenn RÚV missa ekki málfrelsið þó að þeir taki sæti í stjórninni,“ segir Lára.

Hún segir Ástþór vísa hvað eftir annað í siðareglur starfsmanna í kærunni en bendir á að stjórnarmenn séu ekki starfsmenn.

Spurð hvað hún ætli að aðhafast í málinu segist hún ætla að bíða eftir því að haft verði samband við hana af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, það er ef lögregla tekur mark á þessu, segir Lára Hanna. Hefur þú áhyggjur af þessu? „Mér finnst þetta bara spennandi og skemmtilegt. Ég hef engar áhyggjur, nákvæmlega engar áhyggjur af þessu,“ segir hún.

Lára Hanna Einarsdóttir, stjórnarmaður í RÚV.
Lára Hanna Einarsdóttir, stjórnarmaður í RÚV. Ljósmynd/Lára Hanna
mbl.is