Sigurður Ingi kjörinn formaður

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og nýr formaður Framsóknarfloksins, ávarpar flokksþing …
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og nýr formaður Framsóknarfloksins, ávarpar flokksþing Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra var kjörinn formaður Framsóknarflokksins á flokksþinginu sem fram fer í Háskólabíói. 703 greiddu atkvæði. 

Sigurður Ingi hlaut 370 atkvæði, eða 52,7% greiddra atkvæða, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hlaut 329 atkvæði, eða 46,8% greiddra atkvæða. Lilja Dögg Alfreðsdóttir hlaut 3 atkvæði. 

„Ég tek við þessu embætti af miklu þakklæti og auðmýkt,“ sagði Sigurður Ingi þegar hann steig í pontu. 

„Það er engum meira ljóst en mér að við eigum talsvert verk að vinna. Ég vil þakka ykkur öllum fyrir þátttökuna í þessari kosningu. Að koma hér til þings og gera þetta með skýrum hætti. Þetta eru leikreglur lýðræðisins,“ sagði Sigurður Ingi.

„Ég vil nota tækifærið og þakka Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.  Ég vil að þið standið upp. Hann var réttur maður á réttum tíma fyrir Framsóknarflokkinn þegar hann kom fram. Ég bið ykkur um að standa upp og gefa honum gott klapp.“

Sigurður Ingi Jóhannsson var kosinn formaður Framsóknarflokksins í dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson var kosinn formaður Framsóknarflokksins í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is