Mikil óvissa og margir óráðnir

Allt bendir til þess að stórfelldar sviptingar verði á fylgi milli flokka í alþingiskosningunum sem fram fara eftir réttar þrjár vikur ef marka má niðurstöður fylgiskönnunar Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið, sem greint var frá í blaðinu í gær. Sex flokkar fengju þingmenn kjörna ef kosningaúrslitin yrðu þau sömu og niðurstöður könnunarinnar. Sjö framboð næðu ekki manni á þing, þó litlu muni, einkum í tilviki Bjartrar framtíðar sem mælist nú með 4% fylgi. Margt getur breyst fram að kosningunum.

Frétt mbl.is: Þessi komast á þing samkvæmt könnuninni

Kæmi á óvart ef úrslitin vikju meira en 5% frá nýjustu könnun

Óvissan er mjög mikil og veruleg hreyfing á kjósendum. Nú eins og oft áður eru margir kjósendur enn óráðnir, að sögn Ólafs Þ. Harðarsonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Í seinustu kosningum 2013 urðu meiri sveiflur á milli flokka en nokkru sinni áður að sögn Ólafs.

Hann bendir þó á að kannanir að undanförnu hafa í grófum dráttum gefið svipaða mynd af stöðunni. Það myndi því koma nokkuð á óvart að mati hans ef sjálf kosningaúrslitin myndu víkja mikið meira en fimm prósentustigum frá þessum niðurstöðum Félagsvísindastofnunar og svipuðum niðurstöðum annarra kannana að undanförnu. Þó sé alls ekki hægt að útiloka að meiri sveiflur verði á fylginu.

Nýja könnun Félagsvísindastofnunar leiddi í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn fengi 26% atkvæða, Píratar 20%, Vinstri græn 17% ef gengið yrði til alþingiskosninga nú. Viðreisn mælist með 12% atkvæða, Framsóknarflokkurinn 10% og Samfylkingin 6%. Aðrir flokkar næðu ekki inn þingmönnum.

Meiriháttar breyting ef „fjórflokkarnir“ fara í 50-60%

Þegar þessar niðurstöður eru bornar undir Ólaf segir hann stöðu gömlu flokkanna fjögurra, Sjálfstæðisflokks, Framsóknar, Samfylkingar og Vinstri grænna, athyglisverða. Þeir hafa nú verið að mælast með samanlagt 50 til 60 prósenta fylgi. Í langflestum kosningum allt frá 1931 hafa gömlu „fjórflokkarnir“ verið samanlagt með yfir 90% fylgi í kosningum. „Það lægsta sem þeir hafa farið gerðist tvisvar. Í kosningunum 1987 og í síðustu kosningum 2013 en þá fengu þeir um 75%. Þannig að ef þetta gengi eftir þá væri það meiri háttar breyting á hefðbundnum styrkleikahlutföllum í íslenskri pólitík,“ segir Ólafur.

10-12% yrði versta útkoman í 100 ára sögu Framsóknar

Hvað snertir stöðu einstakra flokka segir hann vekja sérstaka athygli hvað Samfylkingunni gangi illa en hún mælist með um 6% í könnun Félagsvísindastofnunar. Það sé að vísu óvenjulega lítið fylgi en engu að síður þá hafi hún eingöngu verið að mælast með innan við tíu prósent í könnunum að undanförnu.

Framsóknarflokkurinn hefur verið að mælast í tíu til tólf prósenta fylgi og segir Ólafur að ef sú yrði raunin í alþingiskosningunum þá yrði það versta útkoma Framsóknar frá upphafi í 100 ára sögu flokksins.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur verið á þokkalegu skriði í könnunum að undanförnu. VG fékk tæp 11% í kosningunum 2013 en mælist nú með yfir 16% fylgi og Ólafur segir að Sjálfstæðisflokkurinn geti í sjálfu sér vel við unað og mælist nú með svipað fylgi og síðast en hann bendir þó á að ef útkoman yrði sú að Sjálfstæðisflokkurinn fengi í kringum 25% í kosningunum, væru það þriðju kosningarnar í röð þar sem flokkurinn er á því róli. ,,Þá veltir maður fyrir sér hvort það sé orðin varanleg breyting frá þeim tímum þegar hann var venjulega með 35 til 40 prósent,“ segir Ólafur.

Viðreisn býður fram í fyrsta skipti og segir Ólafur að gott gengi hennar í könnunum sé athyglisvert. Í könnun Félagsvísindastofnunar mælist Viðreisn með tæp 12%. „Ef Viðreisn fengi 12-13% þá væri það mesta fylgi sem nýr flokkur hefur fengið alveg frá því að núverandi flokkakerfi komst á,“ segir Ólafur. Það hafi bara tvisvar gerst í sögunni að aðrir flokkar en gömlu flokkarnir fjórir hafi farið yfir tíu prósent í þingkosningum. Það voru Borgaraflokkurinn (10,9%) og Kvennalistinn (10,1%) í kosningunum árið 1987. Ef nýir flokkar fá yfir tíu prósent í komandi kosningum er það mjög góður árangur í sögulegu ljósi að sögn Ólafs. Þetta á raunar einnig við um gengi Pírata sem eru þó að bjóða fram í annað sinn, mælast nú með 20% eins og fyrr segir en fengu 5,1% í seinustu kosningum.

Það vekur ekki síður athygli í könnun Félagsvísindastofnunar að stjórnarflokkarnir tveir eru samanlagt með rétt ríflega þriðjungs fylgi meðal kjósenda en þeir fengu rúmlega 50% í kosningunum 2013. Fylgistapið frá seinustu kosningum er eingöngu bundið við Framsókanrflokkinn miðað við könnun Félagsvísindastofnunar.

„Í Vestur-Evrópu hefur tilhneigingin verið sú alveg frá 1945 að stjórnarflokkar tapa frekar en sigra í kosningum og sú tilhneiging hefur verið að ágerast síðustu tíu til tuttugu árin,“ segir Ólafur. Í rauninni minni fylgisþróun núverandi ríkisstjórnarflokka að ýmsu leyti á fylgisþróun flokkanna í vinstri stjórninni frá 2009 til 2013 þó að tap þeirra hafi verið enn meira í kosningunum 2013 en kannanir gefa til kynna um stöðu stjórnarflokkanna í dag. Í kosningunum vorið 2013 töpuðu báðir stjórnarflokkanir, Samfylkingin og VG, yfir helmingi fylgis síns að sögn Ólafs en núna er tap núverandi stjórnarflokka bara bundið við Framsókn.

12% atkvæða féllu dauð niður

Metfjöldi flokka var í framboði í kosningunum 2013 og þeir eru álíka margir núna. Ólafur bendir á varðandi fjölda framboða að í síðustu kosningum féllu tæplega 12% atkvæða dauð niður í þeim skilningi að tæplega 12% kjósenda kusu flokka sem komu engum manni á þing. Þetta skipti miklu máli varðandi stjórnarmyndun að loknum kosningum. ,,Ef 12% atkvæða eru dauð í þessum skilningi þá þarf ekki lengur rétt ríflega 50% til að fá hreinan meirihluta í þinginu. Þá þarf bara rúm 44% til þess. Það breytir því stjórnarmyndunarleiknum,“ segir Ólafur. Í íslenskri stjórnmálasögu hafa dauðu atkvæðin oftast verið vel innan við 5 prósent en þetta breyttist í kosningunum 2013.

Mjög erfitt er að reyna að geta sér til um möguleg stjórnarmynstur út úr niðurstöðum fylgiskannana að undanförnu en fjarlægur möguleiki virðist vera á myndun tveggja flokka stjórnar. Ólafur segir það fara dálítið eftir því hversu mörg atkvæði falla dauð niður í kosningunum 29. október. ,,Miðað við þessar niðurstöður er tveggja flokka stjórn ólíkleg.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »