Berum öll ábyrgð á ósigrinum

Logi Einarsson tekur við keflinu af Oddnýju G. Harðardóttur.
Logi Einarsson tekur við keflinu af Oddnýju G. Harðardóttur. mbl.is

„Þetta er alfarið hennar ákvörðun. Hún axlar ábyrgð og markar þannig tímamót í íslenskum stjórnmálum. Þar með er ekki sagt að hlutirnir séu svo einfaldir að hún beri ábyrgð á ósigrinum, það gerum við öll,“ sagði Logi Einarsson, sem tekur við stöðu Oddnýjar G. Harðardóttur sem formaður Samfylkingarinnar. 

Frétt mbl.is: Oddný hættir sem formaður

Að lokn­um fundi með Guðna Th. Jó­hann­es­syni for­seta tilkynnti Oddný að hún hefði ákveðið að segja af sér for­mennsku í kjöl­far fylg­istaps flokks­ins í þing­kosn­ing­un­um. Logi Einarsson hefur gegnt varaformennsku og tekur því við keflinu. 

„Staðan er sú að ég mun setjast niður með Oddnýju, taka við boltanum og fara yfir þetta með henni. Við erum lítill en þéttur þingflokkur og munum vinna náið saman. Við höfum verið í góðu sambandi og verðum það áfram, það er traust á milli okkar. Við munum stíga þessi skref saman,“ sagði Logi í samtali við mbl.is.

Áherslur Samfylkingarinnar munu ekki breytast við nýju skipanina. „Áherslur okkar í kosningunum lágu fyrir og við munum taka jákvætt í allt sem gæti leitt til þess að okkar áherslur verði ofan á. Síðan verður að koma í ljós með hvaða hætti við getum gert það því við erum í þeirri stöðu að við erum mikilvæg en ekki með forræði á þessu.“

Oddný G. Harðardóttir.
Oddný G. Harðardóttir. mbl.is/Golli

Útilokar ekki minnihlutastjórn

Spurður um afstöðu til tillögu Pírata um að Samfylkingin og Píratar verji minnihlutastjórn Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Viðreisnar, svaraði Logi að það hefði ekki verið útilokað. „Við höfum ekki útilokað neitt ef það getur orðið til þess að okkar málefni verði ofan á í nýrri stjórn.“

Oddný var kjörin formaður Samfylkingarinnar í síðastliðnum júnímánuði með 59,9% atkvæða. Að sögn Loga er ekki komið á hreint hvernig formennskunni verður hagað út kjörtímabilið. 

„Það er algjörlega óráðið. Við vorum kosin í vor til tveggja ára. Það getur verið að það haldi, það getur líka verið að við ákveðum eitthvað annað en það verður ákveðið með hagsmuni flokksins í huga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina