Hefur engum dyrum lokað

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég vildi hitta þingflokkinn til þess að fara yfir vikuna og segja frá því hvernig hefði gengið á fundum með forystumönnum flokkanna. Það var ekki haldinn fundur til annars en að skiptast á upplýsingum og fara yfir stöðuna. Það voru engar ákvarðanir teknar,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.

Þingflokkur sjálfstæðismanna fundaði í dag um stöðuna varðandi mögulegar stjórnarmyndunarviðræður, en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Bjarna umboð til stjórnarmyndunar fyrr í vikunni. Bjarni leggur áherslu á mikilvægi þess að vinna með niðurstöðu kosninganna. Hann hafi ekki lokað neinum dyrum og þar með talið ekki varðandi möguleikann á samstarfi við Vinstrihreyfinguna - grænt framboð.

„Ég sagði það fyrir kosningar líka. Við myndum gera það besta úr henni fyrir land og þjóð,“ segir Bjarni. Spurður hvort viðræðurnar snúist um menn og málefni fremur en pólitíska staðsetningu til vinstri eða hægri tekur Bjarni undir það. Sjálfstæðismenn vilji mynda ríkisstjórn sem byggi á góðri samstöðu og trausti. Varðandi framhaldið segir hann ljóst að formenn allra flokkanna hafi þurft að ræða hver fyrir sig við sitt fólk.

„Það þurfti ég líka að gera. Það er ekki alveg gott að segja um framhaldið,“ segir Bjarni. Hann þurfi að vera áfram í sambandi við forystumenn flokkanna. Spurður hvort það verði um helgina segir hann það jafnvel inni í myndinni. „Við sjáum til.“

Spurður hvort styttra sé yfir í suma flokka en aðra eftir fundina með forystumönnunum segist Bjarni ekki geta sagt að styttra sé yfir í suma en aðra. Hins vegar sé ekki launungarmál að VG hafi séð talsverð tormerki á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

„En við skulum sjá til. Þetta er ekki alfarið í mínum höndum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina