Enginn einn flokkur fær umboðið

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands á blaðamannafundi á Bessastöðum í …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands á blaðamannafundi á Bessastöðum í dag. mbl.is/Ófeigur

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur ákveðið að veita ekki einum tilteknum formanni eða fulltrúa flokks á Alþingi stjórnarmyndunarumboðið að sinni. Þetta tilkynnti hann á blaðamannafundi á Bessastöðum í morgun. „Skynsamlegast er að forystufólk flokkanna á þingi kanni óformlega næstu daga hvernig samstarf sé mögulegt. Enda eru slíkar viðræður þegar hafnar,“ sagði Guðni. „Ég vænti þess að um helgina eða í byrjun næstu viku í síðasta lagi hafi línur skýrst og unnt verði að ákveða næstu skref í þessum stjórnarmyndunarviðræðum.“

Þá segir hann brýnt að kalla þing senn saman. „Vitaskuld væri æskilegast að samkomulag um nýja ríkisstjórn lægi fyrir við þingsetningu.“ 

Guðni átti í morgun fund með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, þar sem hún skilaði stjórnarmyndunarumboðinu. Katrín vildi reyna ríkisstjórnarsamstarf fimm flokka; VG, Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Bjartrar framtíðar. Þeim viðræðum var slitið á miðvikudag. Í kjölfarið átti hún fund með Guðna og svo samtöl við formenn flestra flokka.

Þær viðræður skiluðu ekki árangri og því skilaði Katrín umboðinu til forsetans í morgun.

Guðni sagði að eftir fundinn með Katrínu hefði hann átt samtöl við formenn alla flokka sem sæti eiga á Alþingi um þá stöðu sem upp væri komin. Um leið sagðist hann hafa aflað upplýsinga um afstöðu þeirra til stjórnarmyndunar. Í ljósi þess hvernig viðræður um stjórnarmyndun hafi þróast og með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem formenn og fulltrúar flokkanna lýstu í samtölum við hann í morgun hafi hann ákveðið að veita engum einum tilteknum formanni umboðið til stjórnarmyndunar að sinni.

„Ég er vongóður um að við getum stigið næstu skref um helgina eða næstu daga á eftir en ég get auðvitað ekki lofað því,“ sagði Guðni m.a. á fundi með blaðamönnum.

Engin ástæða til taugaveiklunar

Spurður hvort stjórnarkreppa væri komin upp í landinu sagði Guðni: „Það er ekki vel skilgreint hugtak. Vissulega er það þannig að nær mánuður hefur liðið frá þingkosningum og þess að ríkisstjórn baðst lausnar. En hún er enn við völd. Hún situr þangað til okkur hefur tekist að mynda nýja ríkisstjórn. Þannig að það er engin ástæða til taugaveiklunar.“

Guðni segist fyrir nokkru hafa séð fyrir sér að svo gæti farið að sú niðurstaða sem hann hefur nú kynnt um framhald viðræðna væri vænlegasti kosturinn. „Hins vegar tökum við þetta alltaf skref fyrir skref.“ Guðni segist vita að leiðtogar allra flokka séu allir af vilja gerðir til að leita lausna. Ekki þurfi alltaf að vera vænlegast til árangurs að einhver einn hafi umboð til stjórnarmyndunarviðræðna. „Núna skoðum við saman hvort mál þróast þannig að einhver einn leiðtogi fái umboðið en svo er mönnum líka frjálst, stjórnmálamönnunum, að tala saman án þess að einn hafi beinlínis umboð á hendi.“ Hann bendir þó á að ávallt sé það þó þannig að lokum að forseti skipi forsætisráðherra og ráðuneyti hans.

Guðni sagðist ekki hafa íhugað þann möguleika að skipa utanþingsstjórn. Hann sagði það hins vegar alltaf koma til greina að sú stjórn sem yrði mynduð á endanum yrði minnihlutastjórn. „En ég held að við séum ekki komin á þann stað núna að þurfa að velta því alvarlega fyrir okkur nema stjórnmálaleiðtogarnir á þingi vilji það. En til þess að við myndum minnihlutastjórn þurfa að vera til flokkar sem vilja sitja í henni og flokkar sem vilja verja hana vantrausti.“

Guðni sagðist bjartsýnn á framhaldið. Hann sagði að allir fulltrúar flokkanna sem hann talaði við í morgun hefðu sannfært hann um það, sem hann lagði brýna áherslu á, að ekki mætti útiloka leiðir fyrir fram. 

Katrín Jakobsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson á Bessastöðum í morgun.
Katrín Jakobsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson á Bessastöðum í morgun. mbl.is/Ófeigur

Á morgun eru fjórar vikur liðnar frá því að kosið var til Alþingis. Í fyrstu fékk Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, stjórnarmyndunarumboðið. Er viðræður hans og formanna Viðreisnar og Bjartar framtíðar sigldu í strand skilaði hann umboðinu og Katrín fékk það. 

Yfirlýsing forsetans í heild

„Nú eru liðnar tæpar fjórar vikur síðan gengið var til alþingiskosninga,“ sagði Guðni við upphaf blaðamannafundarins. Hann las svo uppeftirfarandi yfirlýsingu sína:

„Tveir flokksleiðtogar hafa fengið umboð til stjórnarmyndunar. Fyrst Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, svo Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Bæði þreifuðu fyrir sér með ýmsa kosti, bæði boðuðu til formlegra viðræðna um myndun nýrrar ríkisstjórnar, sem nyti meirihluta á þingi. Í fyrradag tilkynnti Katrín mér að bundinn hefði verið endi á viðræður fulltrúa fimm flokka um stjórnarsamstarf. Í framhaldi af því bað ég hana að kanna hvort grundvöllur væri fyrir frekari stjórnarmyndunarviðræðum undir hennar stjórn. Í gærkvöldi tjáði hún mér að svo væri ekki. Eins og sakir stæðu að minnsta kosti. 

Fyrr í morgun kallaði ég því hana á minn fund hér á Bessastöðum þar sem við ræddum stöðu mála áfram og hún skilaði umboði mínu til stjórnarmyndunar. Í beinu framhaldi af þeim fundi ræddi ég í síma við formenn eða fulltrúa allra flokka sem sæti eiga á Alþingi um þá stöðu sem upp er komin. Um leið aflaði ég upplýsinga um afstöðu þeirra til stjórnarmyndunar og minnti á þá miklu ábyrgð sem hvílir á þinginu að sjá til þess að ný ríkisstjórn verði mynduð þegar fyrri stjórn hefur misst þingmeirihluta og beðist lausnar.

Í ljósi þess hvernig viðræður um stjórnarmyndun hafa þróast frá kosningum og með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið í samtölum mínum við forvígismenn flokkanna hef ég ákveðið að veita ekki einum tilteknum formanni eða fulltrúa flokks umboð til stjórnarmyndunar að sinni. Fyrir slíku skrefi eru bæði hefð og gildar ástæður eins og málum er komið.

Skynsamlegast er að forystufólk flokkanna á þingi kanni óformlega næstu daga hvernig samstarf sé mögulegt. Enda eru slíkar viðræður þegar hafnar. Í því sambandi árétta ég mikilvægi þess að stjórnmálamennirnir rísi undir þeirri ábyrgð sem þeim er lögð á herðar. Að sjá til þess að í landinu sé ríkisstjórn sem meirihluti á Alþingi geti sætt sig við. Ég nefni jafnframt þá brýnu nauðsyn að kalla þing senn saman. Vitaskuld væri æskilegast að samkomulag um nýja ríkisstjórn lægi fyrir við þingsetningu.

Ég vænti þess að um helgina eða í byrjun næstu viku í síðasta lagi hafi línur skýrst og unnt verði að ákveða næstu skref í þessum stjórnarmyndunarviðræðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka