Flokksmenn hafa engan áhuga á þessu

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og …
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd/mbl.is

„Ef svo skyldi vera að þessar fréttir séu réttar þá hefur það í för með sér ákveðin vandamál, ekki bara fyrir Sjálfstæðisflokkinn heldur líka í raun og veru fyrir mögulegt ríkisstjórnarsamstarf,“ segir Gunnlaugur Snær Ólafsson, formaður utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.

Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður í dag. Fram kom í Fréttablaðinu að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla á kjörtímabilinu um hvort eigi að hefja að nýju viðræður við ESB. Gunnlaugur segir það andstætt stefnu Sjálfstæðisflokksins en landsfundur hafi ályktað skýrt um málið.

Ákveðin mótsögn

„Sjálfstæðisflokkurinn myndi eingöngu krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu ef það ætti að sækja um aðild að nýju. Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði ekki að hafa frumkvæði að því að sækja um að nýju því hann er andsnúinn því að ganga í Evrópusambandið. Þetta er ákveðin mótsögn ef slík atkvæðagreiðsla ætti sér stað,“ segir Gunnlaugur.

Gunnlaugur Snær Ólafsson.
Gunnlaugur Snær Ólafsson.

„Segjum sem svo að það yrði kosið snemma á kjörtímabilinu eða á því miðju; ætlar forysta Sjálfstæðisflokksins út í kosningabaráttu gegn því að þetta verði samþykkt á meðan forystumenn annarra ríkisstjórnarflokka væru hugsanlega að berjast með ályktuninni?“ spyr Gunnlaugur og veltir því fyrir sér hvort flokkurinn gæti haft forystuhlutverk í ríkisstjórn sem ætti að semja um aðild að ESB.

„Þetta eru allt miklar andstæður. Síðan bætist ofan á þetta ef það á að vera seint á kjörtímabilinu þá ertu með það sem eftir er af kjörtímabilinu óvissu um stöðu Íslands í utanríkismálum. Við sáum 2009 þegar sótt var um aðild við ESB þá voru fríverslunarviðræður við Kína settar á ís vegna þess að Kínverjar sáu enga ástæðu til að halda áfram viðræðum við Íslendinga ef Íslendingar skyldu síðan ganga í ESB og ógilda samninginn.

Pólitískur ómöguleiki

Gunnlaugur segir alveg ljóst hver afstaða flokksmanna flokksins og kjósenda sem hafi veitt þingmönnum umboð sé. „Hún hefur alfarið verið á þá leið að þeir hafa engan áhuga á þessu.“

Aðspurður hvort málið sé þá í raun óumsemjanlegt svarar Gunnlaugur með vel þekktum frasa: „Þetta er ákveðinn pólitískur ómöguleiki. Það er til að mynda út af þessu máli sem það er stjórnarkreppa. Í raun og veru væri þessi niðurstaða ekki í hag Sjálfstæðisflokksins og ekki í anda stefnu flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka