Óttast að sammælst verði um óbreytt ástand

Þorsteinn óttast að frjálslyndið láti undan í því ríkisstjórnarsamstarfi sem …
Þorsteinn óttast að frjálslyndið láti undan í því ríkisstjórnarsamstarfi sem helst blasir við. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum að glöggva okkur betur á því hvar flokkarnir fjórir voru staddir í viðræðunum um síðustu helgi, ef sú staða kæmi upp að það samtal yrði eitthvað breikkað,“ segir Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og félags- og jafnréttismálaráðherra í fráfarandi ríkisstjórn. Vísar hann þar til fundar sem Viðreisn, Samfylkingin og Píratar áttu í morgun, en tilgangurinn var meðal annars að kanna grundvöll fyrir mögulegu samstarfi í ríkisstjórn.

„Svo líka ef svo fer sem horfir að hér sé ríkisstjórn Vinstri-grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks að taka við, að slípa saman línurnar upp á að geta veitt slíkri stjórn öfluga og málefnalega andstöðu. Maður óttast að frjálslyndið láti undan í slíku ríkisstjórnarsamstarfi. Það veitir þá ekki af að vera með vel samstillta stjórnarandstöðu.“

Eftir að Framsóknarflokkurinn sleit stjórnarmyndunarviðræðum við Vinstri-græna, Samfylkingu og Pírata síðastliðinn mánudag var talað um að Framsókn hefði ekki viljað breikka meirihlutann með því að fá Viðreisn inn í viðræðurnar. Þorsteinn telur hins vegar að það hafi verið borið til baka.

„Síðan hefur Framsókn neitað því og sagst vera opin fyrir öllum kostum í þeim efnum. Ég var á Rás 2 með Lilju í vikunni þar sem hún aftók með öllu að Framsókn hefði sérstaklega sett stein í götu þess að Viðreisn kæmi inn í viðræðurnar,“ segir Þorsteinn og á þar við Lilju Alfreðsdóttur, varaformann Framsóknarflokksins. Í viðtalinu sagði Lilja að það hefði klárlega verið vilji fyrir því af hálfu Framsóknarflokksins að bæta tveimur flokkum við í viðræðunum og stækka þannig meirihlutann, sem flokknum þótti of naumur. „Við höfum alltaf sagt að við útilokum enga flokka og það er margt sem Viðreisn hefur fram að færa,“ sagði hún jafnframt.

„Ég trúi ekki öðru en það sé satt og rétt,“ segir Þorsteinn. Hann telur að miðað við þessi orð ætti vel að vera grundvöllur fyrir samtarfi þessara fimm flokka; Vinstri-grænna, Framsóknarflokks, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar. „Ekki nema sú umræða hafi verið fyrirsláttur vegna áhugaleysis í viðræðunum yfir höfuð. Annars er ekki hægt að lesa það öðruvísi en að sá möguleiki hljóti að vera opinn.“

Sameinast um það sem ekki á að breyta

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, greindi Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri-grænna, frá því í gær að fulltrúar áðurnefndra þriggja flokka myndu ræða saman í dag. Hann ætlaði svo að kynna henni þennan valkost við hitt ríkisstjórnarmynstrið sem helst er til umræðu núna; samstarf Vinstri-grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Þorsteinn segir í raun ómögulegt að segja til um það núna hvort einhverjar líkur séu á að flokkarnir fjórir, sem áttu í viðræðum, taki upp þráðinn aftur með Viðreisn innanborðs. „Við vitum auðvitað ekki hversu langt samtöl hinum megin eru komin, en í stuttu máli þá hefur verið mjög mikið ákall um breytingar í samfélaginu allar götur frá hruni. Það hefur valdið mikilli pólitískri ólgu. Stjórnmálin eiga að snúast um það hvernig við horfum til framtíðar, hvernig við tökumst á við þær miklu áskoranir og tækifæri sem blasa við okkur. Maður óttast hins vegar að stjórn þessara þriggja flokka sé fyrst og fremst að sammælast um óbreytt ástand.“

Þorsteinn segir það blasa við að verulegur hugmyndafræðilegur ágreiningur sé á milli flokkanna þriggja sem nú eiga í viðræðum, en þeir séu þó sammála um þætti eins og óbreytt ástand í sjávaraútvegi, landbúnaði og Evrópusamstarfi.

„Þessir flokkar eru þá kannski fyrst og fremst að sameinast um það sem þeir vilja ekki breyta, en ekki hvaða verkefni eru brýn á komandi árum. Þetta yrði þá ríkisstjórn stöðnunar og það kann ekki góðri lukku að stýra.“

ESB-málin ekki þau mikilvægustu núna

Þorsteinn segir vissulega áherslumun á milli Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata, sem hittust í morgun, en það sé mikill samhljómur um nauðsyn þess að breyta vinnubrögðum í stjórnmálunum. Til að mynda með því að breikka samstarfið á milli meirihluta og minnihluta hverju sinni. „Einnig um það hvernig er mikilvægt að takast á við þessar áskoranir sem eru fram undan í mennta- og heilbrigðismálum, breytingar á stjórnarskrá, jafnréttismál og mannréttindamál, en ekki síður mikilvægi þess að ná að leysa áratugalöng deilumál í pólitíkinni með breyttum vinnubrögðum og breiðari nálgun.“

Þorsteinn segir fundinn í morgun vissulega hafa verið stuttan og að ekki hafi verið farið djúpt í málefnin, en ítrekar að samhljómurinn hafi verið góður.

Viðreisn hefur gefið út að þjóðaratkvæðagreiðsla um frekari skref í átt að inngöngu í Evrópusambandið sé ekki skilyrði fyrir mögulegri þátttöku í ríkisstjórn, líkt og Samfylkingin hefur gert. Aðspurður hvort það ætti ekki að greiða götu fyrir samstarfi við Vinstri-græna og Framsóknarflokk segir Þorsteinn: „Ég held að það blasi alveg við í sjálfu sér að mikilvægustu málefnin liggja ekki þar. Þetta snýst um það hvort við erum að fara að sjá ríkisstjórn sem horfir til framtíðar og tekur á þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir þegar kemur að því að bæta efnahagslegan stöðugleika, styrkja mennta- og heilbrigðiskerfið okkar. Ekki aðeins varðandi fjármögnun þessara mikilvægu kerfa heldur líka hvernig við mótum starfsemi þeirra til framtíðar, sem ekki hefur tekist að leiða til lykta þrátt fyrir ítrekaða umræðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert