Píratar útiloka Miðflokkinn

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Píratar eru ekki reiðubúnir að fara í stjórnarsamstarf við Miðflokkinn. Þetta sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, í stjórnvarpsþættinum Víglínunni á Stöð 2 í dag. Píratar hafi lagt áherslu á breytt stjórnmál og gegnsæi gegn spillingu.

Þórhildur sagði Sigmund aldrei hafa gengist við ábyrgð sinni varðandi Panama-skjölin og stofnað nýjan flokk í kringum sína eigin persónu í kjölfar þess að Framsóknarflokkurinn hafi að minnsta kosti reynt á taka á málinu með því að skipta um formann.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, lét nægja að segja að Miðflokkurinn væri ekki fyrsti kostur þegar kæmi að stjórnarmyndun. Logi hefur ásamt Pírötum og Viðreisn viljað hefja nýjar viðræður um vinstristjórn með þátttöku fimm flokka.

Sigmundur var einnig gestur Víglínunnar og sagði að Panama-málið væri afgreitt en þeir sem hefðu verið að setja það fyrir sig „eins og þessi Pírati“ virtust fyrst og fremst byggja stefnu eigin flokks á því sem þeir hefðu lesið „hjá einhverjum bloggdólgum“.

Píratar hafa áður útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.

Þátturinn í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina