Fundi slitið hjá VG – „Þetta stendur í þeim“

Þingflokksfundi Vinstri grænna hefur verið slitið án niðurstöðu. Honum verður framhaldið klukkan 13 á morgun. Fundurinn hófst klukkan fjögur í dag og stóð til að taka ákvörðun um hvort hefja á formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk.

„Þetta stendur greinilega í þeim,“ segir Grétar Þór Eysteinsson stjórnmálafræðingur. Hann segir ljóst að ef einhugur væri um að fara í viðræðurnar lægi niðurstaðan líklega fyrir.

„Ég held það hafi alltaf legið fyrir að það yrði ekki auðvelt að feta þennan veg, en þar með er ekki sagt að það verði ekki reynt að fara hann. Þetta er kannski eitthvað sem búast mátti við að þyrfti að minnsta kosti að ræða vel og vandlega,“ segir Grétar.

Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur sagði fyrr í dag að líkast til yrði erfiðara fyrir Bjarna Benediktsson að smala sínum þingmönnum saman en fyrir Katrínu, ef af ríkisstjórninni yrði. Grétar tekur þó ekki undir það. 

„Það yrði örugglega ekki auðvelt fyrir Bjarna. Maður er var við það á samfélagsmiðlum að Sjálfstæðismenn brosa ekki allir hringinn af þessari tilhugsun.“ Hann telur þó grasrót VG hvikari og órólegri en grasrót Sjálfstæðismanna og það gæti vafist fyrir Katrínu.

Hann tekur þó undir orð Baldurs um að þingflokkur VG sé samstilltari nú en þegar flokkurinn sat í ríkisstjórn með Samfylkingu 2009-13.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert