Leiði björgunarleiðangur íslensks samfélags

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir rangt að ný stjórn sé ekki …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir rangt að ný stjórn sé ekki að stuðla að kerfisbreytingum. mbl.is/Golli

 „Við teljum að innviðir samfélagsins séu orðnir svo veikir að veruleg hætta stafi af. Þess vegna erum við hér,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í ræðu sinni á Alþingi í kvöld. 

Vinstri hreyfingin — grænt framboð telji orðið svo mikilvægt að laga heilbrigðiskerfið, samgöngurnar og menntakerfið að flokkurinn hafi tekist það á hendur að efna til samstarfs við þá flokka sem hann hafi  gagnrýnt hvað mest og aldrei unnið með áður. „Til þess þarf skýran pólitískan vilja, þrek og kjark. Við höfum það sem til þarf, við höfum þann styrk og þann kjark. Við þorðum að taka frumkvæðið og grípa tækifærið.“

Erum að bjarga heilbrigðis- og menntakerfinu

Rangt sé að ný stjórn sé ekki að stuðla að kerfisbreytingum. „Við erum að bjarga heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngum frá langvinnri vanrækslu og ásælni peningaaflanna. Það er búið að rétta við efnahagslífið eftir hrunið.  Eftir standa innviðirnir, margir hverjir vanræktir til langs tíma. Viðfangsefnin eru alls staðar,“ sagði Svandís.

VG vilji nú hefja aftur á loft þá sýn að enginn verði skilinn eftir og vinna samkvæmt því og um leið sé verið  að leggja grunn að róttækri stefnu í loftslagsmálum og umhverfismálum.

„Við erum að efla opinbera heilbrigðiskerfið, hlut aldraðra og öryrkja, skólana, tungutæknina og náttúruverndina. Við ætlum okkar að styrkja stöðu barnafólks, kvennastétta og brotaþola kynferðisbrota. Þetta eru mikilvægar samfélagsumbætur. Við leggjum líka áherslu á siðareglur, gagnsæi og opnara samtal milli flokka og út í samfélagið.“

Veit vel að efla þarf stöðu þingsins

VG hafi kjarkinn sem þurfi til að leiða þann björgunarleiðangur fyrir íslenskt samfélag sem þjóðin þurfi á að halda.

„Við erum að breyta,“ sagði Svandís og kvað stjórnina munu beita sér af afli fyrri sínum stóru markmiðum.

„Við ætlum að ráðast gegn fátækt í landinu. Við viljum ráðast gegn ójöfnuði, auka samneyslu, draga úr greiðsluþátttöku þeirra sem veikast standa og byggja upp eins og við frekast getum innviði á öllum sviðum. Við viljum réttlátara samfélag.“

Eftir að hafa verið þingflokksformaður í stjórnarandstöðu um árabil sé sér vel ljóst að efla þurfi stöðu þingsins, ekki hvað síst eftirlits- og aðhaldshlutverk þings gagnvart framkvæmdavaldinu og þessar áherslur hafi ratað inn í stjórnarsáttmálann. „Nýkjörinn forseti Alþingis hefur þegar beitt sér fyrir því að staða Alþingis styrkist í fjárlögum næsta árs.

Ekki sé allt leyst en skrefin sem hafi verið stigin með stjórnarmynduninni séu skref í rétta átt. „Verkin eiga eftir að tala en viljinn er skýr,“ sagði Svandís.

mbl.is