St. Jósefsspítali fær nýtt hlutverk sem Lífsgæðasetur

St. Jósefsspítali verður Lífsgæðasetur undir stjórn Evu.
St. Jósefsspítali verður Lífsgæðasetur undir stjórn Evu. mbl.is/Eggert

„Þarna ætlum við að auka lífsgæði fólks,“ segir Eva Michelsen, nýráðinn verkefnastjóri Lífsgæðaseturs í hinum fornfræga St. Jósefsspítala í Hafnarfirði.

St. Jósefsspítali er eitt af þekktari kennileitum bæjarins en hefur staðið auður síðan 2011. Styr hefur staðið um framtíð hússins en í fyrrasumar festi bærinn kaup á því og skipaði starfshóp til að móta framtíðarstefnu þess. Ákveðið var að setja á stofn Lífsgæðasetur, heilsa – samfélag – sköpun, þar sem verði fjölbreytt og lifandi starfsemi á sviði heilsuverndar og sköpunar í samræmi við heilsustefnu Hafnarfjarðar. St. Jósefsspítali var byggður árið 1926 af St. Jósefssystrum. Arkitekt hússins, sem er tæpir 3.000 fermetrar, var Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins.

Eva segir í samtali við Morgunblaðið að alls kyns starfsemi geti rúmast í húsinu.

Flottur hópur sótti um

„Hér gætu til dæmis verið sjúkraþjálfarar, jógakennarar, sálfræðingar, leirlistarfólk, myndlistarfólk og hér gæti verið heilsuefling fyrir eldri borgara eða aðra sem þurfa á slíku að halda. Hugtakið er mjög vítt og nú er unnið að undirbúningi. Fyrsti umsóknarfrestur um að koma með starfsemi í húsið rann út 30. apríl og það var mjög flottur hópur sem sótti um. Nú þarf að huga að nýtingu hússins og sjá hvaða starfsemi passar hér inn.“

Þessa dagana er unnið að endurbótum á húsinu sem hefur drabbast niður á undanförnum árum. Verið er að rífa glerhýsi sem var utan á húsinu og þjónaði sem anddyri. Þá á að skipta um alla glugga og þeir nýju verða í frönskum stíl eins og var í upphafi. Hugmyndin er að St. Jósefsspítali verði færður í upprunalegt horf eins og unnt er. „Það er áætlað að taka húsið í notkun í áföngum. Við vitum ekki hvenær nákvæmlega en vonandi verður fyrsta fólkið komið inn einhvern tímann á þessu ári.“

Eva starfaði áður sem framkvæmdastjóri Húss sjávarklasans og hún kveðst vonast eftir að viðlíka stemning myndist í St. Jósefsspítala og gerði þar.

„Þar var ótrúleg samstaða. Ólíklegustu fyrirtæki og aðilar hófu að vinna saman og það getur vonandi gerst hér. Ef til vill kemur líka einhver frumkvöðlastarfsemi hingað, að hér verði til nýjar hugmyndir, ný verkefni og nýtt samstarf.“

Hægt er að fylgjast með framvindu verksins á heimasíðunni www.hafnarfjordur.is/stjo 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert