Ætla að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Sigurður Unnar

Viðreisn ætlar á fyrstu 100 dögum komandi kjörtímabils að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Þar að auki vill flokkurinn leiða í lög 60% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030.

Þetta kemur fram í sérstakri fréttatilkynningu flokksins um stefnu í loftslafsmálum.

Á blaðamannafundi flokksins fóru Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar og frambjóðandi í Reykjavíkurkjördæmi suður, og Katrín Sigríður Júlíu Steingrímsdóttir, frambjóðandi flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, yfir þau atriði sem Viðreisn stefnir á að gera í loftslagsmálum ef flokkurinn kemst í ríkisstjórn.

  • Lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum
  • Útfæra og kynna tekjuhlutlausa græna hvata
  • Leiða í lög -60% losunarmarkmið fyrir árið 2030 m.v. 2005 fyrir losun á ábyrgð Íslands
  • Birta áætlun og aðgerðir til að minnka losun vegna landnotkunar um 50% árið 2030 m.v. 2020
  • Leiða í lög að þau fyrirtæki sem losa mest á Íslandi (t.d. stóriðjan) setji sér markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 og birti samsvarandi aðgerðaáætlun
Katrín Sigríður Júlíu Steingrímsdóttir og Daði Már Kristófersson.
Katrín Sigríður Júlíu Steingrímsdóttir og Daði Már Kristófersson. Ljósmynd/Viðreisn

Fráfarandi ríkisstjórn fær falleinkunn

„Viðreisn mun setja loftslagsmálin í forgang á næsta kjörtímabili, hvort sem er innan eða utan ríkisstjórnar. Mannkynið fékk rauða viðvörun í nýrri skýrslu IPCC og fráfarandi ríkisstjórn fær falleinkunn í loftslagsmálum. Góð umsögn Ungra umhverfissinna um umhverfisstefnu flokksins staðfestir hversu framarlega Viðreisn er í umhverfismálum og er skýr valkostur fyrir kjósendur sem leita að frjálslyndum flokki með metnað í loftslagsmálum,” sagði Daði Már á fundinum.

Í fréttatilkynningu Viðreisnar segir enn fremur að stefna flokksins sé sú að þeir sem mengi beri umhverfiskostnaðinn sem hlýst af eigin mengun. Það verði tryggt með grænum sköttum sem hvetji til umhverfisvænnar hegðunar.

Þá vill Viðreisn ekki að grænir skattar auki umhverf ríkisins heldur að þeir verði tekjuhlutlausir. Þannig yrði tekjum af grænum sköttum var í að koma til móts við tekjulægri hópa samfélagsins og þá sem búa í dreifbýli og hjálpa þeim að minnka kolefnisfótspor sitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina