Óttast Ingu Sæland á Instagram í sturtu

Þeir sem starfa með Ingu Sæland í Flokki fólksins vilja helst ekki að hún opni aðgang á Instagram. Óttast þeir að hún gleymi að slökkva á forritinu meðan hún fer í sturtu og að allt fari úr böndunum.

Þetta upplýsir Inga Sæland um í léttum dúr í viðtali í Dagmálum, opnu streymi á mbl.is sem birt er í dag.

Þar ræðir Inga um stöðu Flokks fólksins og kosningarnar framundan. Segist hún hamast á Facebook til þess að fá athygli og koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

„Ég er ekki góð í Twitter og þeir vilja helst ekki að ég fari á Instagram og halda jafnvel að ég myndi jafnvel gleyma að slökkva á þessu þegar ég færi í sturtu og það er ekki fyrir góðu. Ég er svo hvatvís og ég vil bara gera þetta allt saman og í tæknimálunum [...]“

Of margir lúti flokksræði

Hún segir að öðru leyti að það hafi komið sér á óvart hversu ósjálfstæðir þingmenn séu í störfum sínum. Þeir lúti flokksræði. Þá sé áhugavert að sjá hversu sterk fjórða valdið sé, þ.e. fjölmiðlarnir. 

„Því fleiri blaðamenn sem þú átt fyrir vini, því meiri umfjöllun færð þú. Því fyrr sem þú lætur vita að þú ætlir að segja eitthvað í störfum þingsins þá birtast einhverjir vinir þínir og taka myndir og pakka svo saman og fara áður en næsti byrjar að tala.“

Þá segir hún pólitíkina ráðast mikið af því frá degi til dags hvað stjórnmálamenn telji að nái athygli almennings og fjölmiðla.

Viðtalið við Ingu má sjá í heild sinni hér.

mbl.is