„Ekki blessuð blíðan“ á kjördag

Veðurspáin á kjördag er ekki frábær, en þó skárri en …
Veðurspáin á kjördag er ekki frábær, en þó skárri en búist var við.

Það verður ekki blessuð blíðan á kjördag ef marka má veðurspá fyrir morgundaginn, að sögn Birtu Lífar Kristinsdóttur veðurfræðings.

„Þótt það verði ekki blessuð blíðan þá verður þetta engin eymd og volæði,“ segir hún í samtali við mbl.is. Á morgun er spáð 3-7 gráðu hita og 4 m/s á höfuðborgarsvæðinu en þó bætir í vindinn seinni partinn. 

Skárra en gert var ráð fyrir

Þrátt fyrir umtal um slæmt veður á kjördag segir Birta að spáin sé öll að skána: 

„En það verður leiðinlegt veður. Það er smávegis slydda á Vestfjörðum, slydduél og rigning sunnantil með suðurströndinni og ekki víst að það nái inn á höfuðborgarsvæðið.“

Þegar líður á kjördag fer hins vegar að hvessa og er spáð stormi norðvestantil og aukningu í úrkomu.

Væri þá betra fyrir kjósendur á höfuðborgarsvæðinu að vera fyrr á ferðinni?

„Það mun gefa í vindinn þegar líður á daginn, sérstaklega norðvestantil. Annars staðar er ekki þörf á því veðurfarslega séð að vera fyrr á ferð en seinna, þótt vissulega gefi í vindinn,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert