Áskorun að tala ekki um skyndilausnir

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir greiddi atkvæði í Mýrinni í Garðabæ í …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir greiddi atkvæði í Mýrinni í Garðabæ í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, greiddi atkvæði í morgun í Mýrinni í Garðabæ. Þorgerður óttast að ríkisstjórnin haldi velli og lítið breytist. 

Spurð hvernig henni hafi fundist kosningabaráttan segir hún hana hafa verið skemmtilega en þó áskorun.

„Þetta er búin að vera sérstök en skemmtileg kosningabarátta. Ég viðurkenni að það er áskorun að vera ekki í skyndilausnum í pólitík og fá fólk til að hugsa lengra,“ segir Þorgerður í samtali við mbl.is.

Verður á flakki í dag

Þorgerður segir að formennirnir muni byrja að tala saman í kvöld. „Það verða einhverjar sendingar strax í kvöld. Ef stjórnin heldur þá liggur það ljóst fyrir að þau muni fara yfir málin og þá eru mestar líkur á að hún haldi áfram en þá hreyfist lítið.

Planið hjá mér er að vera á flakki. Hafa samband við fólk og taka utan um fólkið mitt,“ segir Þorgerður. Hún bætir við að fyrsta sem hún mun gera á morgun verði að heyra í móður sinni.

mbl.is