„Fer inn í kvöldið með engar væntingar“

Lenya Rún Taha Karim Pírati er ein þeirra sem datt …
Lenya Rún Taha Karim Pírati er ein þeirra sem datt út sem uppbótarþingmaður í kjölfar endurtalningar í Norðvesturkjördæmi. Ljósmynd/Píratar

Lenya Rún Taha Karim, frambjóðandi Pírata, er ein þeirra sem duttu út sem uppbótarþingmaður eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi, en greint var frá þessu nú fyrir stuttu. Lenya hefði orðið yngsti kjörni þingmaður í sögu Alþingis, en hún er einungis 21 árs gömul.

Mbl.is náði í Lenyu eftir þessar vendingar og segir hún að um mikil vonbrigði sé að ræða. „Fólk hafði sýnt það á samfélagsmiðlum hér heima og úti í heimi að það var ánægt með að hafa mig inni,“ Segir hún. Hún segir þó að lýðræðið verði að virða og að rétt niðurstaða sé mikilvæg. „Er eins og það er og fer eins og það fer,“ segir hún.

Lenya tekur fram að þó hún detti út komi annar fulltrúi Pírata, Gísli Rafn Ólafsson, inn í Suðvesturkjördæmi. „Hann er einnig frábær fulltrúi,“ segir hún.

„Bókstaflega eru þetta bara vonbrigði“

Segir Lenya að miðað við stöðuna sé ömurlegt ef hún nái ekki að vera fulltrúi þeirra hópa sem hún vildi vera í forsvari fyrir og nefnir þar meðal annars innflytjendur og ungt fólk, en Lenya á rætur að rekja til Kúrdistan. „Bókstaflega eru þetta bara vonbrigði, en þetta kom samt ekki á óvart. Það munaði svo fáum atkvæðum að ég kæmist inn,“ segir hún.

Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis, sagði við mbl.is fyrir stuttu síðan að ekki yrði talið aftur í Suðurkjördæmi, en þar var einnig mjótt á munum. Breyting þar gæti einmitt haft talsverð áhrif aftur á jöfnunarsætin. Þórir sagði að engin beiðni hefði enn borist um endurtalningu, en enn á eftir að koma í ljóst hvort svo verði.

Spurð hvort hún telji að það stefni í aðra kosninganótt fyrir sig segir Lenya að svo gæti vel verið. „En ég fer inn í kvöldið með engar væntingar,“ segir hún og bætir við hlægjandi: „Ég held að ég þurfi bara bráðlega að fara að sofa.“

mbl.is