Brotthvarf Birgis dragi ekki úr getu flokksins

Karl Gauti Hjaltason, Bergþór Ólason og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru …
Karl Gauti Hjaltason, Bergþór Ólason og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru á meðal þeirra sem funduðu í dag.

Stjórn Miðflokksins harmar þá ákvörðun Birgis Þórarinssonar að yfirgefa þingflokk Miðflokksins nú strax að loknum kosningum og áður en þing hefur verið sett.

Þetta segir í yfirlýsingu sem stjórnin hefur látið mbl.is í té, að loknum fundi hennar í kjölfar fregna af brotthvarfi Birgis, sem Morgunblaðið flutti í dag.

Borið Birgi á örmum sér

„Brotthvarf þingmannsins er fyrst og fremst áfall fyrir þann góða og öfluga hóp sem borið hefur Birgi á örmum sér sem oddvita flokksins í Suðurkjördæmi og unnið mikið og óeigingjarnt starf í kosningabaráttunni. Í því samhengi er ákvörðun þingmannsins mikil vonbrigði,“ segir þar enn fremur.

Tekið er fram að stjórnin færi flokksmönnum þakkir „fyrir mikla og ósérhlífna vinnu í aðdraganda kosninga“, og ekki hvað síst flokksmönnum í Suðurkjördæmi, sem lagt hafi mikið á sig við að afla stefnu flokksins fylgis í kosningunum.

„Flokkurinn metur framlag þessa fólks mikils og mun áfram berjast fyrir hugsjónum þess. Breytt skipan þingflokksins dregur ekki úr getu hans til að fylgja eftir þeim grunngildum og hugsjónum sem sameina okkur sem flokk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina