Áslaug: „Draumaráðuneyti fyrir flesta“

Áslaug er spennt að takast á við ný verkefni.
Áslaug er spennt að takast á við ný verkefni. mbl.is/Árni Sæberg

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fráfarandi dómsmálaráðherra, tekur nú við nýju ráðuneyti nýsköpunar, iðnaðar og háskóla. Henni líst vel á ráðuneytið sem þó á enn eftir að móta með betri hætti.

„Þetta er auðvitað búið til utan um tækifæri sem eru til í þessum málaflokkum svo ég er mjög spennt,“ segir hún.

Gríðarleg tækifæri

Þetta er málaflokkur sem þú hefur svolítið talað inn í. Þetta hlýtur að vera draumaráðuneyti fyrir þig?

„Þetta ætti auðvitað að vera draumaráðuneytið fyrir flesta að mínu mati. Þarna liggja gríðarleg tækifæri hvort sem það er í vísinda- og háskólageiranum, iðnaðinum nýsköpuninni allri og þeirri tækniþróun sem er að vera.“

Uppskiptingin á skólamálunum eigi sér erlendar fyrirmyndir

Bætir Áslaug við að nú eigi sér einnig stað breytingar á starfsumhverfi fólks og hún sé spennt að takast á við þetta nýja verkefni.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið fór áður með málefni grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla en nú fara háskólamálin í ráðuneyti Áslaugar, en skólamál falla undir ráðuneyti Ásmundar Einars Daðasonar, skóla- og barnamálaráðuneytið.

Hvers vegna þessi uppskipting á skólamálunum?

„Við sjáum þetta víða í löndunum í kringum okkur, að vísindin og háskólamálin séu ekki endilega með hinum menntamálunum heldur í meira flútti við nýsköpunina til dæmis. Ég held að þarna geti myndast aukin tækifæri og áhersla í þessum geira,“ segir Áslaug að endingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert