Almar bætist í baráttuna um fyrsta sætið

Almar Guðmundsson framkvæmdastjóri.
Almar Guðmundsson framkvæmdastjóri.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi, býður sig fram í fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Áður hafa Sigríður Hulda Jónsdóttir bæjarfulltrúi og Ás­laug Hulda Jóns­dóttir, bæjar­full­trúi og for­maður bæjar­ráðs Garða­bæjar, boðið sig fram. 

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri og oddviti meirihlutans í Garðabæ, hefur þegar tilkynnt að hann muni hætta sem bæjarstjóri að loknu kjörtímabili.

Almar hefur setið í bæjarstjórn Garðabæjar frá árinu 2014, í bæjarráði frá 2018 og er formaður fjölskylduráðs og öldungaráðs. Hann er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA-gráðu frá London Business School. 

„Ég legg áherslu á traustan, sjálfbæran og ábyrgan rekstur sveitarfélagsins. Góð fjármálastjórn er forsenda þess öfluga og fjölskylduvæna samfélags sem við viljum halda áfram að byggja upp hér í Garðabæ. Það þarf mikla vinnu og úthald til að viðhalda þeirri stöðu,“ segir í tilkynningu frá Almari.

„Íþróttir og starf frjálsra félaga eiga sterka taug í mér, enda hef ég lagt mitt af mörkum í starfi þeirra. Ég var m.a. formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar í sjö ár. Ég hef verið og ætla áfram að vera talsmaður þess að Garðabær sé í forystu við að efla þessa starfsemi og nýta þann kraft sem býr í félögunum í þjónustu við íbúana.“

Almar segir hlutverk oddvita snúast um að leiða samstilltan hóp fólks til góðra verka, hóp sem hafi burði til að ljúka verkefnum og ná settum markmiðum. „Ég hef mikla reynslu af slíku starfi, bæði í daglegum störfum og félagsmálum. Þess vegna býð ég mig fram til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri flokksins sem fram fer hinn 5. mars.“

mbl.is