Gaf mínu fólki loforð um framboð

Ásmundur var á Suðurlandi um helgina og stillti sér upp …
Ásmundur var á Suðurlandi um helgina og stillti sér upp við skilti þar sem Rangárþing ytra er á korti. mbl.is/Sigurður Bogi

„Tækifærið er spennandi og ég gaf mínu fólki fyrir austan loforð um að bjóða mig fram sem sveitarstjóraefni. Frestur rennur út um miðjan febrúar og að óbreyttu fer ég í framboð,“ segir Ásmundur Friðriksson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur að undanförnu verið stíft orðaður við hugsanlegt framboð á lista sjálfstæðismanna í Rangárþingi ytra, sem væntanlega gengur eftir. Mun þá setja stefnuna á oddvitasætið og þar með starf sveitarstjóra, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngum átt mikið fylgi meðal kjósenda á þessum slóðum.

Rangárþing ytra spannar svæðið milli Eystri-Rangár og Þjórsár; frá fjöru og inn á fjöll. Í sveitarfélaginu búa nú 1.880 manns, þar af um 940 manns á Hellu. Sveitirnar þarna eru – í grófum dráttum sagt – Þykkvibær, Holt og Landsveit, Rangárvellir og Heklubæir og þar var Ásmundur á ferð um helgina. Ræddi við fólk um landsins nauðsynjar og verkefnin fram undan.

Finnst nauðsynlegt að hitta mitt fólk

„Ég kann vel við mig hér í Rangárþingi ytra og ég á hér vini á nánast öðrum hverjum bæ. Konan mín, Sigríður Magnúsdóttir, er frá Lyngási, skammt frá Hellu og hér í sveit eigum við sumarhús. Á þessum slóðum á ég trausta stuðningsmenn og góða vini,“ segir Ámundur þegar blaðamaður hitti hann á laugardaginn í söluskálanum við Landvegamót. Hann var þá á ferðalagi um svæðið og heilsaði upp á fólk.

Fyrir skemmstu fluttu Ásmundur og kona hans lögheimili sitt að Árbæjarhjáleigu í Holtum. „Mér finnst nauðsynlegt að hitta mitt fólk og heyra hvernig landið liggur. Ég finn að fólk hér hefur til dæmis tekið blóðmeramálið svokallaða mjög nærri sér og er sært. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að taka utan um samfélagið og vinna að sátt. Í Rangárþingi ytra bíða svo mörg spennandi verkefni, svo sem stækkun grunnskóla, græn atvinnuuppbygging og framkvæmdir við Hvammsvirkjun fara vonandi í gang á árinu með tilheyrandi afleiddum störfum og þjónustu. Mikilvægt er að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið og sveitarfélagið þarf að vera í stakk búið til að mæta fjölgun íbúa og fleiri fyrirtækjum. Skipulag fyrir atvinnustarsemi og íbúðarbyggð þarf að fela í sér fleiri tækifæri,“ segir Ásmundur.

Nánar er rætt við Ásmund í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »