„Með þessu móti fer ég með hann á elliheimili“

Kjartan Ólafsson í pappaformi. Þessi pappa-Kjartan hefur verið á ferðalagi …
Kjartan Ólafsson í pappaformi. Þessi pappa-Kjartan hefur verið á ferðalagi um Reykjavík í aðdraganda kosninganna.

Kjartan Ólafsson hefur beðið eftir búsetuúrræði við hæfi hjá Reykjavíkurborg síðan árið 2016. Samt er hann ekki á biðlista enda slíkur í raun ekki til. Móðir hans sér ekki fram á að með þessu áframhaldi fái hann nokkurn tímann viðeigandi húsnæði. Kjartan vann mál gegn borginni vegna stöðunnar í fyrra. Borgin áfrýjaði til Landsréttar og verður málið tekið fyrir í sumar. 

„Kjartan fæddist fatlaður og þá lá fyrir að hann myndi þurfa stuðning í framtíðinni,“ segir Ragnheiður Gunnarsdóttir móðir Kjartans í samtali við mbl.is. 

Kjartan er með þroskaskerðingu, metinn á einhverfurófi og greindist með insúlínháða sykursýki þegar hann var fimm ára gamall. Ragnheiður segir að af þeim sökum þurfi hann eftirlit allan sólarhringinn enda sé um lífshættulegan sjúkdóm að ræða. Sykursýkin gerir það líka að verkum að foreldrar hans geta ekki fengið hvern sem er til þess að sjá um hann því starfsmennirnir þurfa að læra að meðhöndla sykursýki fyrst. 

„Við foreldrar hans þurfum alltaf að vera á bakvakt fyrir þá starfsmenn sem eru með honum til þess að geta hjálpað þessu fólki,“ segir Ragnheiður. 

Vill fá svör um biðina

Árið 2016, þegar Kjartan var 19 ára gamall, höfðu foreldrar hans samband við Reykjavíkurborg og sóttu um búsetuúrræði fyrir Kjartan. Nokkru síðar höfðu foreldrarnir ekki heyrt neitt um húsnæði fyrir drenginn sinn og vildu því kanna hvar á biðlistanum Kjartan væri. Þá kom í ljós að Reykjavíkurborg var ekki með biðlista. Hún flokkaði fólk eftir þjónustuþörf og var Kjartan settur í flokk þrjú fyrir fólk með mikla þjónustuþörf. Í þeim hópi eru nú 47 einstaklingar og er fólk tekið inn í búsetuúrræði hverju sinni eftir mestu þörfinni í hópnum. Þar sem einungis örfá pláss fyrir þennan hóp opnast árlega og Kjartan á sterka foreldra er ekki útlit fyrir að hann fái húsnæði á næstunni. 

„Með þessu móti fer ég með hann á elliheimili,“ segir Ragnheiður sem krefst þess ekki að biðin eftir húsnæðinu verði stutt, eingöngu að fjölskyldan fái einhver svör um það hvenær Kjartan komist að. 

Það hefur hún ekki fengið, ekki einu sinni þó að Kjartan hafi unnið mál sem höfðað var gegn borginni á þeim grundvelli að borginni beri að svara öllum umsóknum með svari um það hvenær búseta verði í boði innan þriggja mánaða.

Geti ekki falið sig á bak við eitthvað annað

Ragnheiður bendir á að dómurinn hafi verið fordæmisgefandi og því ættu öll sveitarfélög á landinu að þurfa að gefa fólki í sambærilegri stöðu svar um það hvenær það fái búsetu. 

„Það þýðir að þau þurfa að búa til raunhæfar áætlanir og geta ekki falið sig á bakvið eitthvað annað,“ segir Ragnheiður. 

En borgin sætti sig ekki við niðurstöðuna og ákvað að áfrýja henni til Landsréttar. Aðspurð segir Ragnheiður að það væri mjög sterkt fyrir réttindabaráttu fatlaðra í heild sinni ef fjölskyldan vinnur málið. 

Bera ábyrgð á syninum allan sólarhringinn

Ragnheiður er hjúkrunarfræðingur og starfar sem verkefnastjóri í öldrunarþjónustu. Kjartan býr hjá henni tvær vikur í mánuði, hjá föður sínum eina og í skammtímavistun eina. Ef eitthvað kemur upp á þar þarf faðir hans þó að sækja hann enda er þar ekki hægt að sinna fólki sem t.d. lendir í veikindum.

„Við berum ábyrgð á syni okkar 25 ára gömlum allan sólarhringinn,“ segir Ragnheiður. Svo hún komist til vinnu greiðir hún fólki til þess að sjá um son sinn. „Ég get ekki farið út úr húsi þegar Kjartan er hjá mér og þá er ég með þjónustusamning við sveitarfélagið. Ég fæ greidda háa fjárhæð og ég kaupi starfsfólk til þess að geta sinnt honum.“

Ragnheiður segir lógískt að Kjartan fái búsetu við hæfi á meðan foreldrar hans eru enn nægilega heilsuhraustir til þess að geta hjálpað honum að aðlagast nýjum stað. 

„Einhver sem er 25 ára er á betri stað í lífinu til þess að læra að flytja frá mömmu sinni en maður sem er orðinn fimmtugur og á áttræða mömmu.“

Ragnheiður, sem hljómar nokkuð brött þrátt fyrir allt saman, segir að hún og faðir Kjartans séu í betri stöðu en margir aðrir foreldrar fatlaðra barna. 

„Þetta fólk bugast. Þú finnur ekki stærri hóp af buguðu fólki en foreldra fatlaðra barna.“

Þverpólitískt mál sem snýst um mannréttindi

Sveitarstjórnarkosningar nálgast og hefur Kjartan tekið þátt í þeim. Þó ekki sem frambjóðandi heldur með mynd af honum á pappaspjaldi sem starfsmenn foreldranna hafa ferðast með, t.a.m. til frambjóðenda. Nokkrir þeirra hafa viljað smella mynd af sér með pappa-Kjartani. 

„Fyrir mér er þetta þverpólitískt mál. Það er ekki pólitískt að fá pláss á hjúkrunarheimili, að fæða börn á fæðingardeild, að börnin manns komist í grunnskóla og leikskóla. Þetta er mannréttindamál,“ segir Ragnheiður og bætir við:

„Ég er ekki að biðja um 5 herbergja íbúð. Þau þurfa 30 eða 40 fermetra, vakt allan sólarhringinn og að þau njóti mannréttinda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert