Kjörsókn fer hægar af stað á landsbyggðinni

Kjörsókn í Reykjavík hefur farið vel af stað. Formaður yfirkjörstjórnar …
Kjörsókn í Reykjavík hefur farið vel af stað. Formaður yfirkjörstjórnar veltir því fyrir sér hvort Eurovision hafi einhver áhrif. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kjörsókn fer hægt af stað víða á landsbyggðinni þó hún hafi gengið nokkuð kröftuglega í höfuðborginni. Formenn yfirkjörstjórna velta því fyrir sér hvort að sauðburður hafi mögulega haft einhver áhrif en binda þó vonir við að kjósendur skili sér á endanum. Þá hefur Covid-19 einnig verið að stríða einhverjum kjósendum.

Klukkan eitt höfðu 14,89% kjósenda í Reykjavík greitt atkvæði, samanborið við 13,1% á sama tíma í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Eva Bryndís Helgadóttir formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík segir tölurnar ánægjulegar en telur þó líklegt að fólk sé fyrr á ferðinni í ár vegna Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem fer fram í kvöld.

Kosningum í Grímsey lokið

Á Akureyri var kjörsóknin um 14,4% þegar blaðamaður náði tali af Helgu Eymundsdóttur, formanni yfirkjörstjórnar á svæðinu, um hálf tvö leytið. Er það aðeins minna en í síðustu sveitarstjórnarkosningum en þá höfðu um 15,08% greitt atkvæði á svipuðum tíma dags.

Hægt er að greiða atkvæði til 22 á Akureyri en búið er að loka kjörstað í Grímsey og skiluðu 24 kjósendur sér þar af þeim 52 sem eru á kjörskrá. Að sögn Helgu býst hún við að einhverjir hafi kosið utan kjörfundar.

Fólk mögulega áhugasamara síðast

Svipaða sögu er að segja frá sveitarfélaginu Múlaþingi en síðast þegar staðan var tekin klukkan 11 í morgun höfðu um 6,9% kjósenda greitt atkvæði. Er það nokkuð lægra en á svipuðum tíma í síðustu sveitarstjórnarkosningum en þá höfðu um 9% greitt atkvæði.

Hlynur Jónsson formaður yfirkjörstórnar á svæðinu segir ekki útilokað að fólk hafi verið spenntari að kjósa árið 2018 en þá voru fyrstu kosningarnar eftir sameiningu sveitarfélaganna í Múlaþing.

Þá segir hann kosningarnar einnig frábrugðnar flestum sveitarstjórnarkosningum á landinu þar sem einnig er kosið um heimastjórn. Fer kosningin fram á sama stað og sveitarstjórnarkosningarnar en þrátt fyrir það virðist aðeins dræmari þátttaka vera þar, eða einungis um 4,3%.

Svipuðu móti og síðast

Á Ísafirði hefur kjörsókn verið með svipuðu móti og í síðustu kosningum en síðast þegar tölur voru teknar klukkan 11 var hún um 4,5%. Díana Jóhannsdóttir formaður yfirkjörstjórnar á svæðinu segir biðraðir vera við allar kjördeildir núna og vonar hún að kjósendur skili sér í hús áður en Eurovision hefst í kvöld.

Að sögn Díönu hefur gengið vel í dag, aftur á móti hafi yfirkjörstjórnin ekki gert ráð fyrir hve margir væru enn með Covid-19 í sveitarfélaginu og hafa kjósendur verið að leita svara við því hvernig hægt sé að kjósa með veiruna. Díana segir þá einstaklinga þurfa að bíða þar til að skrifstofa sýslumanns opni svo hægt sé að afgreiða slíkt.

Spurð út í mönnun, segir hún það hafa tekið óvenju langan tíma að manna kjörstaði enda hafi ný kosningalög greinilega ekki verið sett á með minni sveitarfélög í huga. Það hafðist þó á endanum þó að tæpt hefði verið að ná varamönnum.

mbl.is