Miðflokkurinn hafi stöðu til að fella meirihlutann

Ómar Már Jónsson.
Ómar Már Jónsson.

Oddviti Miðflokksins í Reykjavík segir flokkinn í raunverulegri stöðu til að fella meirihlutann í borginni og hefur hann góða trú á að framboðið muni breyta stefnu borgarinnar.

Dagurinn leggst vel í hann en hann mætti einbeittur til leiks rétt fyrir hádegi upp í Ölduselsskóla og greiddi þar atkvæði. Hann segir kosningabaráttuna hafa verið gríðarlega skemmtilega þrátt fyrir hvað hún var stutt en frambjóðendur á lista flokksins trúi því í einlægni að þeir séu á réttri leið.

„Mér finnst að Miðflokkurinn hafi verið að vekja góða og mikla athygli á þessari stuttu kosningabaráttu og við höfum séð fylgið margfaldast og það vantar ekki mikið upp á að við mælumst með mann inni samkvæmt þessum nýjustu könnunum og við teljum að við séum í raunverulegri stöðu til þess að fella meirihlutann í borginni ef að við fáum aðeins meiri stuðning kjósenda til þess.

Þá erum við í stöðu til að breyta algjörlega um stefnu hjá borginni og setja óskir og þarfi íbúa í fyrsta sæti en ekki vera í sérhagsmunagæslu fyrir sérhagsmunaaðila eins og venjan hefur verið,“ segir Ómar Már Jónsson oddviti Miðflokksins.

Margir komu eftir kappræðurnar

Stríður straumur fólks hefur verið á kosningaskrifstofu framboðsins í dag og segir Ómar mikið af nýjum andlitum hafa sést. Segir hann marga hafa tekið ákvörðun að koma í framhaldi af kappræðunum á Rúv í gær. 

„Þetta fólk finnst mér dálítið vera að tala í sömu átt, það er að átta sig á því að Miðflokkurinn er í sjálfu sér eina aflið sem er með skýra stefnu, t.d. í því að hafna alfarið Borgarlínu, það sé algjört óefni að halda því áfram. Við viljum vernda flugvöllinn í Vatnsmýrinni og það er ekki orðið of seint, við horfum á þetta sem hálfleik.

Við munum leggja alla áherslu á að hann verði í Vatnsmýrinni. Við viljum líka horfa á þetta með fasteignamarkaðinn. Þarna hafa þarfir íbúanna verið fótum troðnir vegna þess að borginni hefur algjörlega mistekist að horfa til lengri tíma til að skapa jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar.“

Telur hann ástandið á húsnæðismarkaðnum tengjast óstjórn og kerfisbákni í borginni. Segir hann Miðflokkinn vilja koma sterkan inn í borgarstjórn og setja hagsmuni íbúa aftur í fyrsta sæti.

Kemur í ljós hvort hann verði ráðinn

Ómar kveðst mjög spenntur fyrir kvöldinu og hefur hann tilfinningu fyrir því að Miðflokkurinn muni ná í gegn. 

„Ég hef horft á þetta sem ákveðið atvinnuviðtal sem ég er í við borgarbúa og núna, eftir daginn í dag kemur í ljós hvort ég verði ráðinn eða ekki.“

mbl.is