Nefnir mögulegt fimm flokka samstarf

Sanna Magdalena.
Sanna Magdalena. mbl.is/Ágúst Óliver Erlingsson

Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurborg, segist mjög ánægð með fyrstu tölur upp úr kjörkössunum í borginni. Benti hún á að Píratar kæmu líka vel út og Framsókn sömuleiðis, í umræðum oddvita í ríkissjónvarpinu í nótt.

Eins og staðan er nú stefnir í að flokkurinn fái tvo fulltrúa kjörna. Er flokkurinn sá eini utan núverandi meirihlutasamstarfs sem Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur gætu fengið til liðs við sig og þar með fengið meirihluta í borgarstjórn.

Eitthvað sem hægt væri að skoða

Því var Sanna spurð hvert flokkurinn horfi nú, þegar spáð er í meirihlutasamstarf á komandi kjörtímabili.

„Ég vil sjá Sósíalista koma að stjórn borgarinnar. Ég á eftir að tala betur við fólkið mitt og heyra í þeim, en ég myndi vilja sjá einmitt einhverja svona félagshyggjustjórn, með áherslu á mannúð, og eins og við sjáum stöðuna eins og hún lítur út núna, þá væri hægt að mynda slíkt með Samfylkingu, Sósíalistum, Pírötum, VG og Flokki fólksins.“

Þessir flokkar fengju, samkvæmt fyrstu tölum, samtals tólf fulltrúa.

„Þannig ef ég tala bara svona út frá þeirri stöðu sem við erum í núna, þá væri þetta eitthvað sem hægt væri að skoða.“

Útilokar „auðvaldsflokka“

Myndirðu útiloka samstarf við hina flokkana, Framsókn, Sjálfstæðisflokk og Viðreisn?

„Ég hef útilokað samstarf við auðvaldsflokkana, og legg þar sérstaka áherslu á Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn. Við sjáum ekki að við séu með þær hugmyndafræðilegu áherslur, þær eru ekki sambærilegar hjá okkur.

Og við sjáum það að Framsókn hefur oft verið að vinna til hægri. Við höfum ekki séð hvort það séu vinstri eða hægri áherslur hér í borginni, í þessum málefnum. Mér finnst það ekki hafa komið skýrt fram.

Þannig að við þurfum auðvitað bara öll að tala saman og vera bara meðvituð um hvert við viljum stefna. En ég veit að við viljum stefna til vinstri. Þannig að mér finnst að við ættum að tala í þá átt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert