Tímafrek talning í Reykjavík skrifast á nýtt fyrirkomulag

Mikil spenna ríkti í höfuðstaðnum meðan beðið var eftir fyrstu …
Mikil spenna ríkti í höfuðstaðnum meðan beðið var eftir fyrstu tölum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miklar tafir voru á kosningatölum frá Reykjavík aðfaranótt sunnudags. Fyrstu tölur voru áætlaðar á miðnætti en komu þegar klukkan var að ganga tvö og lokatölur komu ekki fyrr en á fimmta tímanum. Eva B. Helgadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík, segir breytt fyrirkomulag talningar hafi valdið þessum miklu töfum. Ný reglugerð um talningu atkvæða sem tók gildi 14. apríl, mánuði fyrir kosningar, hafi valdið því að talningin varð mun tímafrekari en gert var ráð fyrir.

„Við áætluðum og vorum alveg einlæg í því að koma með fyrstu tölur á miðnætti, fyrstu tölur komu einum og hálfum klukkutíma of seint.“

Eva segir að það hafi komið aftan að kjörstjórninni hve tímafrekt nýja fyrirkomulagið reyndist vera og í raun dregur í efa þann ávinning sem það á að hafa yfir gamla fyrirkomulagið.

„Að mínu mati er þetta ekkert að hjálpa þar sem ef það finnst villa þá breytir það því ekki að það þarf að telja allt upp á nýtt,“ segir Eva og bætir því við að eflaust hefði verið betra að láta reyna á þessa nýju reglugerð í forsetakosningum, sem eru ekki jafn flóknar og borgarstjórnarkosningar.

„Auðvitað mun maður nálgast þetta af auðmýkt og finna út úr því hvernig má bæta ferlið. Það má líka spyrja sig hvort framkvæmdin við þessa reglugerð hafi verið rétt,“ segir Eva og bætir því við að æskilegt hefði verið að hafa samráð við talningarfólk í Reykjavík sem hefur að hennar mati viðtækustu reynsluna og þekkingu á framkvæmd kosninga.

Áður fyrr voru tveir talningarmenn í teymi, einn taldi atkvæðin og hinn fjölda atkvæða í kjörseðlabunka. Ef þeir voru sammála um fjöldann var farið með bunkann yfir á uppgjörsborð. Eftir að nýja reglugerðin tók gildi þarf einn talningarmaður að merkja niður raðnúmer kjörseðlabunkans og kvitta fyrir, annar telur atkvæðin og kvittar fyrir. Eftir það þurfa öll atkvæðin í bunkanum að vera færð inn í töflureikni. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert