Persónulegt og pólitískt spjall við Einar

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík, telur ekki útilokað að borgarstjóraembættið falli í hendur flokksins enda hafi mikill sigur verið fólginn í því að bæta við sig fylgi þrátt fyrir að hafa setið í meirihluta og haft verk til að verja. 

Eins og aðrir oddvitar segir hún þó málefnin vega þyngra þegar kemur að viðræðum um meirihlutasamstarf, sem eru nú í fullum gangi. 

Hún ræddi við nokkra oddvita í dag, þar á meðal Einar Þorsteinsson sem fer fyrir Framsóknarflokknum. Voru samræður milli þeirra bæði á pólitísku og persónulegu nótunum, enda deila þau bæði afar einstakri reynslu af því að hafa eignast barn í miðri kosningabaráttu, nokkrum vikum fyrir kjördag.

„Hann kíkti til mín í kaffi í dag. Við ræddum aðeins saman um fæðingarreynslu, börn og magakveisu,“ segir Dóra Björt í samtali við mbl.is.

„Þannig þetta var svona persónulegt og pólitískt spjall.“

Mun heyra í Sönnu fljótlega

Ásamt því að hafa rætt við Einar, hefur Dóra einnig verið í samskiptum við oddvita Samfylkingarinnar og Viðreisnar, í dag en flokkarnir hafa ákveðið að vera í samfloti í gegnum viðræðurnar á næstu dögum um myndun nýs meirihluta.

Þá heyrði hún einnig stuttlega í Kolbrúnu Baldursdóttur, oddvita Flokks fólksins, og stefnir hún á að heyra fljótlega í Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, oddvita Sósíalistaflokksins.

Eini flokkurinn í meirihluta sem bætti fylgi sitt

Nokkur styr hefur staðið um hver muni verða næsti borgarstjóri Reykjavíkur, eða hvort Dagur B. Eggertsson muni halda því embætti áfram.

Spurð hvort Píratar hafi áhuga á því embætti, útilokar Dóra ekki að flokkurinn taki það að sér.

„[V]ið vorum eini flokkurinn sem hafði verið í meirihluta, og hafði verk að verja, sem að bætti við sig fylgi og þá nokkuð veglega. Okkur gekk auðvitað ofboðslega vel í þessum kosningum og náðum frábærum árangri sem við erum stolt af. Það hlýtur að styrkja okkar stöðu í samningaviðræðunum. Borgarstjórastóllinn sjálfur er eitthvað sem að þarf að ræða í kjölfarið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert