Niðurstaða væntanleg í næstu eða þarnæstu viku

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík og Einar Þorsteinsson, …
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík og Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, segir að flokkarnir muni koma til með að nýta vel þann tíma sem þau hafa til að funda. Segir Dagur að fundurinn hafi gengið vel og að hann hafi snúist um að mynda traust innan hópsins.

Dagur tekur fram að nú sé búið að ákveða hvernig flokkarnir ætli að haga næstu dögum og að þau sjái fyrir sér að funda stíft og sitja mikið við þessa viku og þá næstu. Aðspurður segir Dagur að hann reikni með að það eigi eftir að taka þessa viku og þá næstu til að komast að niðurstöðu. 

„Ég hugsa það, við höfum tíma fram að 7. júní og við ætlum okkur að nýta þann tíma vel,“ segir Dagur um hvenær má vænta niðurstöðu úr viðræðunum.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki búið að ræða borgarstjórastólinn

Spurður um hvort að það sé búið að ræða borgarstjórastólinn segir Dagur að það hafi ekki borist til tals. „Við erum öll sammála um það að byrja á málefnunum og ræða síðar verkaskiptinguna,“ segir Dagur og bætir við að það skipti mestu máli að ræða málefnin.

Dagur nefnir að honum finnist mjög spennandi að fá Framsóknarflokkinn inn í þetta samband sem hefur nú þegar verið myndað við hina flokkanna í mögulegum meirihluta með fyrri meirihluta úr síðustu borgarstjórn.

Segist hann þá hafa góða reynslu af því að vinna með Framsóknarflokknum og vísar til þess að hann hafi unnið með Framsóknarflokknum í Reykjavíkurlistanum í fyrri tíð.

mbl.is