Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Ragnhildur Gísladóttir
Ragnhildur Gísladóttir
tónlistarkona

Er amma í alvörunni sammála afa?

Ég er amma þín, fæddist rétt eftir þarsíðustu aldamót og er hamingjusamlega gift afa þínum. Hann er rómantískur og segir stundum að ég sé bæði fagureygð og hárprúð. Ég hef alltaf borið virðingu fyrir honum en ég segi það ekki við hann, sýni honum það bara í verki, af því að mér hefur verið kennt að fólk ofmetnist við hól og skjall. Svo er það líka vegna þess að ég segi ekki mikið svona dags daglega.

Ég er ekki að tjá mig um tilfinningar mínar eða skoðanir eins og hann afi þinn. Hann er í félagsmálunum og á góðri leið inn á þing. Allur hans tími fer í þetta vafstur. Hann kann bókasafnið utanað og hefur lagt áherslu á að læra allt um t.d. jarðvísindi, sögu og pólitík. Hann gefur sér alltaf góðan tíma í lestur og á mikið af bókum.

Mig hefur reyndar alltaf langað til að mennta mig en þar sem aðstæður voru þannig á mínu æskuheimili var aldrei tími til að lesa, enda þótti það ekki við hæfi að við systurnar værum í þannig slugsi. Við vorum 8 systkinin og við stelpurnar höfðum nóg að gera á heimilinu og vinnudagurinn því langur. Honum lauk eiginlega aldrei. Ef ég var gripin við að lesa, sem gerðist stundum, kannski of oft, fékk ég orð í eyra: „Ekki þetta slugs stelpa, verkin eru mörg og gera sig ekki sjálf, hvað heldurðu að hann pabbi þinn segði sæi hann til þín?“

Ég fer með afa þínum á kjörstað og kýs það sama og hann. Stundum spyr ég hann rétt áður en ég fer inn hvað flokkurinn heitir, sem ég á að merkja við, því að ég verð stundum svolítið taugaóstyrk í svona aðstæðum. Þegar ég er með afa þínum er ég alveg örugg og hann veit hvað er rétt í þessum málum. Ég ræði ekki pólitík því mér var alltaf sagt að það þætti ekki kvenlegt að vera að tala um skoðanir og réttindi kvenna í öllu mögulegu eins og launamálum, eða vinnu annars staðar en á heimilinu, enda stendur það í hinni heilögu bók að  hlutverk okkar kvenna sé að vera heima, ala börn, virða Guð og eiginmanninn.

Ég er alin upp í Guðstrú og fer eftir boðum Frelsarans. Þær voru fallegar og góðar konurnar sem þjónuðu honum á sínum tíma. Og ekki eru lætin og óþægindin í kringum nunnurnar sem hafa valið sér það hlutverk að giftast ekki, heldur þjóna og helga Honum líf sitt. Þeirri siðfræði fylgi ég í mínu hjónabandi og maðurinn minn veit hvaða flokk ég á að kjósa. Það er nú líka reynslan í gegnum aldirnar að konum er refsað illilega og sums staðar jafnvel teknar af lífi ef þær eru óþægilegar og af hverju að ögra ef við viljum lifa af? Það er nú þannig að börnin þurfa á okkur að halda. Ekki viljum við hafa þau sjálfala einhvers staðar, eða á vergangi.

Nei, ég hef lært að vilji ég vera í farsælu hjónabandi þá sé best fyrir mig að vera ekki að gaspra um eitthvað sem ég hef ekki vit á og alls ekki á mannamótum. Það kann ekki góðri lukku að stýra, sérstaklega ekki fyrir eiginmann minn sem veit hvað hann syngur. Honum finnst þessar konur, sem eru eitthvað að atast í málum sem eru og eiga auðvitað bara að vera í höndum karlanna, hreinlega vera karlkerlingar. Ég er alveg sammála honum með það. Það bara passar okkur konunum ekki að vera að vesenast í því sem okkur kemur ekki við, heldur gera það sem við kunnum og gerum best.

Stundum, ef ég missi óvart eitthvað út úr mér um þjóðmál eða pólitík, horfir afi þinn annað hvort á mig með hvassa augnaráðinu, sem ég veit hvað merkir, eða þá hann hlær bara. Ég veit ekki hvort mér finnst betra en það er gott að vita sín takmörk Ragnhildur litla og vera ekki óþægileg.