Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Þóra Karítas Árnadóttir
Þóra Karítas Árnadóttir
rithöfundur

Framtíðin í skauti mér

Ég ber barn undir belti og því fylgir töluverð tilhlökkun að vita að eftir um einn og hálfan mánuð verð ég komin með lítinn dreng í fangið ef allt gengur vel. Að setjast niður og skrifa pistil um 100 ára kosningarétt kvenna hefur því ýtt undir áður óþekkta frestunaráráttu og valdið mér jafnmiklum verkkvíða og koma nýs einstaklings í heiminn veldur mér tilhlökkun.

Konur hafa alla tíð síðan fyrsta atkvæðið var greitt í heiminum fætt af sér kjósendur en súffragetturnar bentu á þá staðreynd og slógu því upp sem slagorði í sinni baráttu; að þar sem þær væru farvegur og uppalendur allra atkvæðisgreiðandi manna ættu þær að sjálfsögðu einnig að hljóta atkvæðisrétt. Súffragetturnar sveltu sig svo komandi kynslóðir kvenna mættu eignast sjálfsögð mannréttindi, réttindi sem mikilvægt er að minna á að við höfum svo við sofnum ekki á verðinum.

Vegna þess sem ég á í vændum, um hundrað árum eftir að kynsystur mínar hlutu kosningarétt, velti ég fyrir mér stöðu jafnréttismála í dag og hvort jafnréttisuppeldi lúti mismunandi lögmálum eftir því hvort alinn er upp drengur eða stúlka eins og staðan er í dag. Á ég að finna til öryggis yfir að sonur minn verði líklegri til að fá hærri laun og betri stöður á vinnumarkaði en ef hann væri stelpa? Eða á ég að kvíða neikvæðu umræðunni og alhæfingum sem oft falla um karlmenn og skjálfa á beinunum yfir þeirri staðreynd að um 99% fanga í heiminum eru karlmenn, sem og mikill meirihluti gerenda í ofbeldismálum. Bakslag hefur átt sér stað í fæðingarorlofsmálum karlmanna hér á landi eftir hrun og þar til nýverið hafði karlmanni aldrei verið dæmt sameiginlegt forræði yfir barni sínu ásamt barnsmóður. Enn fremur er það sorgleg staðreynd að í samfélagi okkar eru ungir menn í meiri hættu á að bugast og taka líf sitt en ungar konur og af því tilefni hefur Geðhjálp komið af stað átakinu Útmeða – í því mikilvæga skyni að vekja athygli á lífsnauðsyn þess að karlmenn á öllum aldri þori að leita sér aðstoðar og læri að tjá tilfinningar sínar í stað þess að byrgja þær inni.

Margt jákvætt hefur unnist í jafnréttisbaráttu síðan fyrsta konan gekk að kjörborði til að greiða atkvæði en um leið hefur svo margt í samfélaginu breyst sem gerir það að verkum að því miður hallar enn á mörgum vígstöðum á bæði kynin. Yngstu kynslóð grunnskólanema finnst í mörgum tilvikum fáránlegt að stelpur og strákar hafi ekki alltaf haft jafnan rétt. Þau eiga bágt með að skilja af hverju halli enn á konur er kemur að launamun kynjanna. Fyrir skemmstu fékk Peyjamótið í Eyjum fjölmiðlaumfjöllun í stærsta ljósvakamiðli landsins meðan Pæjumótið á Siglufirði var ekki fest á filmu til myndbirtingar í fréttamiðlum. Hvaða skilaboð eru það til ungra stúlkna og drengja? Gauragangurinn og íþróttahreystin hjá strákum skiptir máli og er töff en ekki eins mikilvæg hjá stúlkum og þá hlýtur eitthvað annað að skipta meira máli þegar fjallað er um stúlkur í fjölmiðlum en útlitsdýrkun, og hlutgerving kvenna er einmitt eitt helsta bakslag kvennabaráttunnar síðustu ára. Óneitanlega er því dýrmætt að vera minntur á að aðeins 100 ár eru liðin frá því að við konur fengum kosningarétt og að því hljótum við á einhvern hátt öll enn að vera nýgræðingar á sviði jafnréttismála.

Ég á mér draum og hef átt lengi um að þegar að jafnréttisbaráttu kemur taki konur upp hanskann fyrir karlmenn og karlmenn fyrir kvenmenn. Ég fagna því átaki eins og #heforshe sem UN Women hrinti af stað fyrir ekki löngu og vona að þannig líti framtíðin út. Að við hvetjum hvort annað áfram sama af hvaða kyni við erum og tökum upp hanskann fyrir þá sem eru beittir órétti hverju sinni, höldum vöku okkar, leiðréttum kynjamisrétti og stuðlum að almennum mannréttindum. Vonandi getum við þannig í sameiningu búið til aðeins betri og jafnréttissinnaðri heim fyrir núlifandi og komandi kynslóðir.