Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Margrét Hallgrímsdóttir
Margrét Hallgrímsdóttir
þjóðminjavörður

Skyggnst aftur til fortíðar

Sem elst fjögurra systra, og móðir sonar og þriggja dætra, hefur jafnrétti kynjanna ávallt verið mér hugleikið. Já, eiginlega sjálfsagt. Því hef ég að sjálfsögðu nýtt mér kosningarétt minn og hvatt dætur mínar og son til hins sama. Ég hef þó á mínum starfsferli séð að gera megi betur, og að sannarlega sé enn verk að vinna.

Barátta fyrir jöfnum rétti fólks á sér langa sögu. Mér verður hugsað til íslenskra kvenna fyrr á öldum, sem bjuggu ekki við sömu réttindi og konur samtímans. Þegar hugsað er til fyrstu alda Íslandsbyggðar sjá þó margir fyrir sér sterkar og áhrifamiklar landnámskonur, sem jafnvel geta enn haft áhrif á hugarfar hér á landi. Fornleifafræðin gefur tækifæri til þess að skyggnast inn í heim landnámsaldar.

Árið 1938 fannst merkur fornleifafundur að Ketilstaðastöðum í Hjaltastaðaþingá. Magnað er til þess að hugsa að fornleifar frá landnámstíma sem varðveist hafa í formalíni í Þjóðminjasafns Íslands geti nú með nýrri tækni og aðferðum veitt einstæða innsýn í líf ungrar landnámskonu sem barnung flutti búferlum yfir hafið til Íslands. Leifar sem grafnar eru upp úr gröfum frá heiðnum og kristnum sið geta reynst óþrjótandi brunnur rannsókna á lifnaðarháttum, hugarfari og menningu til forna. Ketilsstaðakumlið, sem er kvengröf úr heiðnum sið, er eitt þeirra.

Konan hefur látist í byrjun 10. aldar en hluti af andliti hennar varðveittist vegna efnasambanda sem mynduðust þegar vangi hennar hvíldi við koparnælu. Í kumli hennar fundust ekki aðeins gripir af ýmsum gerðum, heldur hafði mjúkvefur konunnar sem í því var heygð einnig varðveist. Það er einstakt. Með vísindaaðferðum samtímans gefst nú tækifæri til rannsókna sem ekki hefði verið hægt að framkvæma þegar kumlið fannst á sínum tíma.

Víða um heim eru til sýnis þess konar leifar, enda þótt þær séu sjaldgæfar og varðveisluaðstæður mismunandi. Margir muna eftir því að hafa heimsótt söfn þar sem múmíur eru sýndar eða svonefnd mýrarlík, en í báðum tilvikum hefur mjúkvefur mannslíkamans varðveist, annað hvort vegna fyrirbyggjandi aðgerða sem koma í veg fyrir rotnun hans eða þá að jarðvegurinn hefur orðið þess valdandi að holdið varðveitist.

Múmíur verða til þegar líkami hinna látnu er smurður en þær geta líka orðið til fyrir slysni við ákveðnar aðstæður, eins og dæmið um Ketilsstaðakumlið sýnir. Til eru nokkur dæmi um það frá N-Evrópu, þar á meðal Tollundmaðurinn svonefndi sem sýndur er á safni í Silkiborg í Danmörku. Hann er um tvö þúsund ára gamall. Mjúkvefir geta einnig varðveist við varanlega frystingu, til dæmis þegar fólk verður úti uppi á fjöllum eins og gerðist í tilviki bronsaldarmannsins Ötzi, sem fannst í ítölsku Ölpunum árið 1991. Hann er talinn vera meira en fimm þúsund ára gamall. Ötzi, sem er elsta varðveitta múmían í Evrópu, var með tattú en hægt var að lesa úr leifum hans ýmsar upplýsingar um heilsufar hans og mataræði.

Svipaða sögu má segja af konunni sem jörðuð var á Ketilstöðum í Hjaltastaðaþinghá í byrjun 10. aldar. Gripirnir sem hún var jörðuð með; fatnaðurinn, skartið og áhöldin, segja sína sögu um líf hennar og samfélagsstöðu, en með greiningum sem gerðar voru á sýnum úr beinum hennar hefur ekki aðeins verið hægt að varpa ljósi á það hvenær hún dó og hvaðan hún kom, heldur einnig á hvers konar fæðu hún lifði sem barn og sem fullorðin kona. Þá er ennfremur hægt að fræðast um heilsufar hennar og þar með draga ályktanir um aðstæður samferðafólks hennar á víkingaöld. En það að hold úr vanga hafi varðveist í yfir þúsund ár í jörðu er einsdæmi á Íslandi. Það varðveittist vegna samspils gripa og einstakra aðstæðna á vettvangi grafarinnar, en við vanga hennar fannst koparnæla sem átti sinn þátt í hinni undraverðu varðveislu.

Segja má þess vegna að Ketilsstaðakonan sé okkar Ötzi, en telja má afar ólíklegt að önnur múmía finnist hér á landi, nema að svipaðar aðstæður skapist og urðu í gröfinni hennar. Saman veita greiningarnar á niðurstöðum úr rannsóknum þessa merka fornleifafundar einstaka innsýn í líf konu á Íslandi á víkingaöld. Framþróun vísindarannsókna á sviðinu hefur gert það að verkum að tíminn sem liðinn er frá fundi Ketilstaðakumlsins hefur unnið með nýrri þekkingu sem nú er kynnt. Áhugavert verður að fylgjast með með nýrri þekkingu sem hin íslenska múmía veitir með hjálp vísinda nútíma. Sú þekking mun án efa auka skilning á aðstæðum fólks á tímum landnáms sem er mikilsvert. Hugsanlega verður hægt að setja þá þekkingu í samhengi við aðstæður kvenna og karla í okkar samtíma, hugarfar og viðhorf til mannréttinda almennt.