Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Margrét Jóhanna Pálmadóttir
Margrét Jóhanna Pálmadóttir
kórstjóri og tónlistarmaður

Kosningadagar eru hátíðisdagar

Ég fékk kosningarétt árið 1974 og var þá þegar orðin móðir, aðeins 18 ára gömul. Þetta var í upphafi mikilla kvennabaráttuára sem breyttu miklu um stöðu kvenna í stjórnmálum. Maður fann fyrir nokkurri spennu milli kynja og kynslóða þegar atvinnu- og launamál kvenna báru á góma. Algengt var að konur dæmdu hver aðra of hart fyrir ýmislegt er varðaði nýjungar í heimilishaldi og uppeldi barnanna. Ekki voru karlarnir skárri. Ég fann fyrir fordómum í minn garð, móðir og menntaskóli fóru ekki saman að margra áliti. Fósturmóðir mín, Sigríður Soffía Pálsdóttir, var mjög vel gefin kona og róleg. Hún hafði skýra heimsmynd, var mikið náttúrubarn, spilaði á píanó og gaf mikið af sér til vina og ættingja. Hún kenndi mér að hvert atkvæði telji og ekki síður þeirra sem hugsa um heimilið, flestar breytingar sem máli skipta hefjast þar. Það kom ekki til greina að ég hætti námi.

Í dag er erfitt fyrir mig að ímynda mér samfélag þar sem konur sitja heima á meðan karlmenn skunda á kosningastað, í vinnuna eða bara á kóræfingar. Þannig hefur það þó verið um langan aldur í Evrópu og víðast hvar um allan heim. Formæður okkar á Íslandi sýndu með baráttu sinni mikinn dug sem mér var kennt að bera virðingu fyrir. Þær settu heimsviðmið eins og íslenskar konur hafa ætíð gert þegar mikið liggur við.

Við mamma puntuðum okkur áður en við fórum að kjósa og fengum okkur tertu á eftir. Pabbi var ekki alltaf með, hann var skipstjóri og oft á sjónum. Þetta var og er hátíðisdagur og skyldumæting, alltaf. Við máttum ekki segja hvað við kusum. Réttur hvers fjölskyldumeðlims var að halda slíku fyrir sig, þótt eflaust hafi allir haft grun um það hvert x-ið hafi ratað á hverjum tíma. Umræður fyrir kosningar voru líka hitamál og fjölskyldan tók þátt í áhorfi og lestri um þær og gerir enn.

Í mínu uppeldi kynntist ég því að málefni og markmið eru mönnum ofar. Þau voru þá, eins og nú, alltaf mjög mörg og oft flókin. Virkjanir, vínmenning, landhelgi, veiðiheimildir, skólamál, barnavernd, gengisfellingar, tollar og margt fleira. Ég varð óneytanlega fyrir ýmsum áhrifum, ekki síst þegar þekktir útgerðarmenn komu í heimsókn til pabba. Framsóknarsveitakonurnar sem skruppu í bæinn voru málglaðar og svo allir kommarnir líka. Mitt heimili var allra flokka og mjög háværar umræður fylgdu bridgeklúbbi foreldra minna á fimmtudagskvöldum. Algengt var að atkvæðin á heimilinu flyttust á milli flokka eftir getu þeirra í sjávarútvegsmálum. Enginn fiskur ekkert líf. Jafnrétti var ekki aðalpæling heimilisins, verkaskiptingin skýr. Pabbi á sjó, mamma heima.

Föðuramma mín og fimm drengja móðir var dugleg baráttukona á Húsavík árið 1915 og hefur nýtt sér kosningaréttinn, þá orðin 43 ára gömul og ein þeirra sem mátti kjósa. Hennar sterku samfélagsskoðanir um jafnrétti, sjálfstæði, hjálpsemi og bræðralag hafa lifað með okkur langömmubörnunum. Ég heyrði viðtal við hana á RÚV frá því um miðja síðustu öld, þar sem hún rómar vinnusemi, heiðarleika og hófsemi. Ég geri það líka.

Um tvítugt fór ég síðan að pæla í kvennapólitík og konur í framboði skiptu mig öllu, málið var bara að þora, vilja og geta. Konur fóru að taka þessu miklu alvarlegar og komu úr öllum áttum og stéttum. Stjórnmál urðu þeim nýr starfsvettvangur. Nú í dag eru mér á ný málefnin öllu ofar. Á þessu ári verða öll börnin mín fimm komin með kosningarétt. Þau punta sig og kjósa og segja mér ekki hvar x-ið lendir eða hverja þau stroka af listum. Svo fáum við okkur tertu og ræðum umhverfismál, hagfræði, mannelsku eða spillingu. Það verða ætíð mál málanna, rétt eins og þegar mamma kenndi mér að kjósa árið 1974.