Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Inga R. Bachmann
Inga R. Bachmann
skartgripahönnuður og gullsmiður

Í mínu fínasta pússi

Ég ólst upp á heimili þar sem umræður um kvennabaráttuna voru tíðar. Með opinskárri umræðu um launamismuninn og mikilvægi þess að konur væru virkar í pólitík og atvinnulífinu gerðu foreldrar mínir okkur systkinunum skýra grein fyrir stöðu kvennabaráttunnar. Faðir minn, sem unnið hefur ýmis störf fyrir verkalýðshreyfinguna, kenndi okkur jafnframt um mikilvægi jöfnuðar.

Sextán ára byrjaði ég að vinna fyrir mér eftir skóla. Ég fékk vinnu í blómabúðinni Blómálfinum sem þá var í eigu frænku minnar, Helgu Thorberg. Ég var mjög ánægð með þessa vinnu því þarna fékk ég ekki einungis listræna útrás í blómaskreytingum heldur öðlaðist ég einnig ákveðið femínískt uppeldi. Að umgangast Helgu daglega og fylgjast með hennar þátttöku í kvennabaráttunni var virkilega gefandi, en Helga var ein af stofnendum Kvennalistans og Hlaðvarpans. Í Blómálfinum fékk ég því að upplifa virka kvennabaráttu og fylgjast með blómlegri umræðu hjá Helgu og vinkonum hennar.

Það að konur skuli vera með kosningarétt er eitthvað sem ég hef ávallt tekið sem sjálfsögðum hlut. Því miður geta ekki allar konur heims samsvarað sig þeirri tilfinningu. Til dæmis er ótrúlegt til þess að hugsa að konur í Sviss hafi ekki fengið að ganga til kosninga fyrr en 1971, en Sviss var seinasta vestræna ríkið til að veita konum kosningarétt. Gleymum svo ekki að enn eru manneskjur á þessari jörð sem flokkaðar eru sem annars flokks þjóðfélagsþegnar fyrir það eitt að vera kvenmenn. Slíkt óréttlæti er stór áminning um hversu mikilvæg kvennabaráttan er enn þann dag í dag.

Alla mína tíð hafa konur í kringum mig nýtt sér kosningaréttinn og verið virkar í hinni pólitísku umræðu. Ég man að sjálf gat ég ekki beðið eftir því að fá að kjósa. Fyrstu kosningarnar sem ég ætlaði að hafa áhrif á voru borgarstjórnarkosningar árið 1998. Mikil og heit umræða hafði verið á heimilinu í aðdraganda kosninga. Þegar kosningaskrifstofan í hverfinu var opnuð að morgni kjördags var ég mætt ásamt pabba í mínu fínasta pússi. En amma Inga hafði sagt mér að maður yrði að mæta spariklæddur í kjörklefann og sýna þannig kosningaréttinum virðingu. Þetta var fallegur aprílmorgunn, vor í lofti og mikil röð hafði þegar myndast fyrir utan. Pabbi og fólkið í kring rabbaði um kosningarnar og í röðinni var almennt góð stemning. Nema hvað, þegar ég sýndi kosningafulltrúa skilríki mín þá var mér vísað frá. Ég lærði það því blákalt að ekki er nóg að vera á átjánda ári til að fá að kjósa heldur verður maður að vera búinn að eiga afmæli. Þetta þótti mér afar óréttlátt á sínum tíma því þarna var ég yngst vinanna og þar af leiðandi sú eina sem ekki kaus. Ég varð því að bíða í heil tvö ár eftir að fá að kjósa í fyrsta skiptið.

Konur fyrri kynslóða hafa greitt götu okkar yngri og finnst mér mikilvægt að staldra við núna á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og íhuga þær breytingar sem hafa átt sér stað. Mín kynslóð ólst upp með Vígdísi Finnbogadóttur sem forseta og Kvennalistann á Alþingi. Við áttum okkur því sterkar kvenfyrirmyndir í þessum baráttukonum. Þetta hefur tvímælalaust haft jákvæð áhrif á stelpur minnar kynslóðar, stelpur sem í dag eru fullorðnar konur sem sjá bara möguleika og nýta sér frelsið til fullnustu.

Að lokum vill ég þakka pabba, mömmu, Ingu ömmu, frænkum, systur minni, Helgu Thorberg og vinum af báðum kynjum fyrir að vera femínistar. Höldum áfram að berjast fyrir jafnrétti og eyðum launamun kynjanna.