Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Björg Einarsdóttir
Björg Einarsdóttir
rithöfundur

Á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna

Allt til ársins 1915 höfðu eingöngu karlar kosningarétt hér á landi, skilyrtan þó á ýmsa vegu. Við stjórnarskrárbreytingu það ár fengu konur kosningarétt með aldurstakmörkunum, er síðan voru felldar niður með fullveldis- stjórnarskránni 18. maí 1920 og mátti þá um sinn kjósa við 25 ára aldur. Hefur kosningarétturinn síðan verið jafn fyrir bæði kynin.

Árið 1933 var enn breytt stjórnarskrá og kosningaréttur og kjörgengi fært til 21 árs aldurs. Í stjórnarskrá frá 1968 var kjörrétturinn ákveðinn við 20 ára aldur og nú (2015) er hann samstiga lögræðisaldri eða 18 ára.

Lýðveldisárið 1944 var ég á 19. ári, eða fædd 1925, og hafði því ekki rétt til að kjósa þar eð enn var í gildi ákvæðið um 21 árs aldur samanber stjórnarskrána frá 1933. Þetta var mér til mikillar hrellingar og margra jafnaldra minna einnig. Okkur þótti sem kosningarétturinn væri helgur réttur sem veitti okkur fullgildi í lýðfrjálsu þjóðfélagi. Og sjálft lýðveldið í húfi - virtist það okkur lítt bærilegt.

Ævinlega síðan hef ég gengið að kjörborði þegar það býðst og er verðugt, til þess að segja mína skoðun á málunum og styðja fyrir mitt leyti við að byggja upp samfélagið. Ég tek nærri mér þegar ég heyri einhvern hælast um af því að kjósa ekki eða skila auðu og dæma sjálfan sig þannig utanveltu í samfélaginu.

Þegar konur hér á landi hófu jafnréttisbaráttu sína snemma á 20. öld var rétturinn til þess að kjósa fyrsta mál á dagskrá hjá þeim. Þær vildu öðlast lýðréttindi, verða hlutgengar og vinna síðan út frá því.

Við yfirlit ritsins Lýðveldishátíðin 1944, sem kom út ári síðar, er fjallað um aðdraganda og stofnun lýðveldis á Íslandi. Þar er geysimikinn fróðleik að finna um þá atburði og hverjir stóðu í framlínu viðburða og að samningamálum. Getið er á landsvísu um marga þjóðkunna menn og sannarlega var vel og markvisst að verki staðið.

En nútíma lesandi hnýtur um hversu fá kvennaheiti koma við sögu og er það án efa tákn þeirra tíma; konur komu lítið til skjalanna á opinberum vettvangi. Örugglega er óhætt að taka svo djúpt í árinni að segja: „að nú sé öldin önnur“. Á blaðsíðu 58 er ein af mörgum ljósmyndum nefndrar bókar með textanum: „Kjósandi skilar atkvæðaseðli.“ Kjósandinn er ónefnd kona að skila seðli í atkvæðakassa og staðfestir, með fordæmi sínu, að konur kusu um stofnun lýðveldisins. Hér um bil allir landsmenn hafa skilað sér á kjörstað í þetta sinn, því niðurstaða kosninganna var að 98.6% kjósenda valdi þann kost að Ísland skyldi verða lýðveldi. Landsmenn létu sig ekki muna um að fara á kjörstað í það sinn og þeir uppskera án efa af því í nútíma.

Þegar ég lít til baka yfir farinn veg, í þessu samhengi, verður mér minnisstæðast fyrsta Alþjóða kvennaár Sameinuðu þjóðanna (SÞ).

Alþjóða kvennaár SÞ 1975 var voldug hvatning til kvenna um allan heim. Hjá Kvenréttindafélagi Íslands (KRFÍ) var mikil vinna þann tíma því í húsakynnum þess, á Hallveigarstöðum við Túngötu Reykjavík, fór fram skipulagning og undirbúningur kvennafrísins 24. október 1975. Því verður ekki á móti mælt að hugmyndin um kvennafrí kom fram hjá Rauðsokkahreyfingunni og þar hélst hún vakandi. En beint tilefni kvennafrísins var tillaga sem samþykkt var á kvennaráðstefnu á Loftleiðum í júní 1975 svohljóðandi:

„Kvennaráðstefnan, haldin 20. og 21. júní 1975, skorar á konur að taka sér frí frá störfum á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október næstkomandi til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags síns.“

Samkvæmt orðanna hljóðan var aðgerðinni einfaldlega ætlað að leiða í ljós hver hlutur kvenna hér á landi væri í rekstri þjóðfélagsins. Hann reyndist vera af þeirri stærðargráðu að þegar konur lögðu niður störf, heima og heiman, stansaði atvinnulífið í landinu.

Með þvílíkt sönnunargagn að vopni hefðu landvinningar á launamarkaðinum átt að vera auðsóttir - en gamla sagan er að Róm var ekki reist á einum degi.