Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Margrét Helga Steindórsdóttir
Margrét Helga Steindórsdóttir
nemi við Menntaskólann að Laugarvatni

Í baráttuhug frá unga aldri

Nú nýtti ég mér kosningaréttinn í fyrsta skipti að verða 19 ára. Mér fannst ég vera svo fullorðin, ég var að kjósa. Litla ég hafði eitthvað að segja í lýðræðislegum kosningum.

Þegar ég varð 18 ára þá stökk ég til og gataði mig, fékk mér húðflúr, keypti tóbak og horfði í fyrsta skipti á bannaða mynd. Allt af því að ég mátti það loksins, það var löglegt og ég var orðin 18 ára. Blessaðan kosningaréttinn nýtti ég mér ekki fyrr en tæplega ári seinna. Að vísu hafa ekki hvorki verið sveitastjórnar- né forsetakosningar síðan á afmælisdaginn merkilega, en samt. Mér datt þetta eitthvern veginn ekki í hug, kosningar eru svo rosalega fullorðins. Svona kominmeðmannbarnogíbúð fullorðins.

Sem krakki hafði ég alltaf gríðarlega sterka réttlætiskennd, allt skyldi fara eftir settum reglum og allir áttu að fá jafnt. Ég ætlaði í stjórnmál til berjast fyrir hinum ýmsu hlutum sem fóru fyrir brjóstið á mér. Enginn handbolti á barnatímanum, betri vegi í sveitirnar og að krakkar þyrftu ekki að fara út í frímínútum. Ég skírði kindina mína Sólrúnu í höfuðið á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur frænku minni því að ég ætlaði sko að verða alveg eins og hún. Svo bendlaði ég mig víst eitthvað við kommúnisma en það var bara tímabundið.

Það hvarflaði aldrei að mér að ég gæti ekki gert eitthvað bara vegna þess að ég væri stelpa, og af hverju hefði 6 ára mér átt að detta í hug að við værum ekki öll jöfn. Að okkur stæðu ekki sömu hlutir til boða. Að strákarnir hefðu það eitthvað betra í framtíðinni, bara vegna þess að þeir eru með typpi og ekki ég?

Ég viðurkenni það alveg að 6 ára ég var með alla „stelpulitina“ á hreinu, en það var ekki smuga að ég myndi taka því að strákar væru betri í fótbolta bara afþví bara, eða að bara stelpurnar þyrftu að ganga frá eftir matinn. Þetta var líklega það sem ég komst næst kynjamisrétti.

Það var ekki fyrr en ég varð aðeins eldri að ég gerði mér grein fyrir því að það hefðu það ekki allir svona gott. Að sumstaðar mættu konur ekki kjósa, að þær væru álitnar annars flokks þjóðfélagsþegnar. Ég áttaði mig á því að við á litla Íslandi höfum það frekar gott, þó að lengi geti gott batnað og allt það.

Ég er alltaf jafn þakklát þegar ég hugsa um þessar kjarnyrtu konur sem ruddu brautina fyrir mig og aðrar stúlkur sem tökum þessu sem sjálfsögðum hlut. Þakklát fyrir konur eins og Bríeti Bjarnhéðinsdóttur sem unnu hörðum höndum að bættum réttindum kvenna og gerðu kosningarétt kvenna að jafn sjálfsögðum hlut og hann er í dag.