Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Stefanía Malen Stefánssdóttir
Stefanía Malen Stefánssdóttir
skólastýra Brúarásskóla

Friður, jafnrétti, ást og öryggi

Rétturinn til að kjósa er eitthvað sem ég hef talið sjálfsögð réttindi. Þó eru þau ekki nema 100 ára og ekki fyrr en um 1850 sem framsýnar konur fóru að berjast fyrir þeim út í heimi. Ég er alin upp við að mikilvægt sé að kjósa og man vel eftir foreldrum mínum að klæða sig upp og fara á kjörstað. Ég sjálf kaus frekar seint því að ég á afmæli í ágúst og mátti því ekki kjósa í alþingiskosningum 1991. Ég græddi þó einn ballmiða á þessum kosningum því að nokkrir vinir mínir voru harðir ungir flokksmenn og höfðu mig með á mynd fyrir blað og í kaupbæti fékk ég miða á ball, sem var fjörugt eins og flest böll þessa tíma. En þetta er nú sennilega í eina skiptið sem ég hef opinberlega verið bendluð við einhvern flokk, tilgangurinn hjá mér vafasamur og ég ekki einu sinni komin með kosningarétt.

Ég kaus því fyrst í sveitarstjórnarkosningum 1994. Fyrsta alþingiskosningin mín er mjög eftirminnileg því að þá var ég stödd í Þýskalandi og kaus utan kjörstaðar. Vissulega hefði verið einfaldara að kjósa þá með nútímatækni en þó að það séu nú bara 20 ár síðan var löturpóstur og kannski stutt símtal á sex vikna fresti það samband sem ég hafði heim. Þannig að ég man ekki hvernig ég ákvað hvað ég ætti að kjósa, en ég kaus, því að það á maður að gera.

Ég hef alla tíð síðan kosið þegar það er í boði, mér finnst það skylda mín sem virkur þjóðfélagsþegn og það mun ég reyna að innræta börnunum mínum. Ég er samt mjög ópólitísk, hef frekar skoðun á málefnum og einstaka fólki heldur en að ég fylgi flokkum. Því fannst mér svolítið vænt um það að vera boðið sæti á þremur listum fyrir sveitarstjórnarkosningar fyrir nokkrum árum. Sæti hef ég aldrei þegið en dáist að fólki sem leggur það á sig að vinna að þessum málefnum því að umræðan um þetta blessaða fólk er ekki alltaf málefnaleg. Í bili læt ég mér nægja að mæta á kjörstað. Ég er einnig alin upp við að það sé mitt einkamál hvað ég kýs og man oft eftir glettni í föður mínum um það hvað mamma hefði kosið en hún gaf ekkert uppi. Það er eins á mínu heimili. Þar eru engin samantekin ráð um hvað á að kjósa, allir verða að gera það upp við sig.

Þar sem kosningaréttur okkar kvenna er einungis 100 ára lék mér forvitni á að vita hvað foreldrar mínir ólust upp við varðandi þeirra mæður. Þau segja bæði að það hafi verið sjálfsagður hlutur að ömmur mínar kysu og þær hafi gert það. Ömmur mínar báðar voru fæddar snemma á síðustu öld og báðar búsettar langt út í sveit og það hefur því kostað töluverða fyrirhöfn að kjósa. Það er þó mjög umhugsunarvert að meðan við fögnum því að konur hér á Íslandi hafi kosningarétt síðustu 100 ár séu konur úti í hinum stóra heimi sem hafa lítinn sem engan rétt til neins. Heil samfélög þar sem konan er eign karlmannsins og verður að sitja og standa eftir hans höfði. Samfélög þar sem ökutæki eru eðlilegur partur af menningu en konur mega ekki taka bílpróf.

Hvernig stendur á því að á þessari kúlu okkar getir ríkt svona mikið ójafnrétti? Þegar sagan er skoðuð er eins og engar konur hafi verið til, það eru karlar sem virðast hafa gert alla merkilega hluti. Þetta má auðvitað rekja til þess að jafnrétti kvenna var skammt á veg komið, en þegar samtímasagan verður skrifuð vonast ég til að þar komi skýrt fram að mikið hefur áunnist og þar eigi konur jafnan sess og karlar. Lausnina á lífsgátunni held ég að megi finna í lagi og vitna í Sölku Sól og Gnúsa Yones: „Við viljum frið, við viljum jafnrétti, ást og finna öryggi.“