Microsoft viðurkennir þróun netsalernis

Talsmenn Microsoft viðurkenndu í gær að hugmyndin um netsalernið iLoo hafi í raun og veru verið í þróun hjá fyrirtækinu þar til öll vinna við það var stöðvuð í kjölfar viðbragða almennings en hugmyndin hefur verið aðhlátursefni netnotenda undanfarnar vikur. Microsoft í Bretlandi hugðist setja upp almenningsklósett búin háhraðanettengingu, víðóma hljóði, vatnsheldu lyklaborði og plasmaskjá á tónlistarhátíðum í Bretlandi í sumar til að kynna MSN þjónustuna í Bretlandi.

Málið þykir allt hið vandræðalegasta fyrir Microsoft ekki síst vegna þess að talsmaður almannatengsla Microsoft í Bandaríkjunum sagði á mánudag að hugmyndin hafi aldrei verið í þróun og hafi verið aprílgabb. Rúmar tvær vikur eru síðan fyrst spurðist út um salernið og hefur það orðið tilefni ótal brandara og höfðu ýmsir áhyggjur af hreinlætismálum þar sem notendur myndu deila lyklaborði á salernum tónlistarhátíða sem alræmd eru fyrir óhreinlæti.

Í gær baðst svo Lisa Gurry, yfirmaður hjá framleiðsludeild MSN í Bandaríkjunum afsökunuar, sagði að um misskilning hefði verið að ræða og að salernið hefði raunverulega verið í þróun. Talsvert tap hefur verið á MSN þjónustunni í Bretlandi og átti salernið að vera framhald á kynningarátaki. MSN hefur áður boðið upp á þráðlausar nettengingar á garðbekkjum í London og á strandstöðum í Frakklandi.

mbl.is