Alin upp á snakki

Móðir eins og hálfs árs breskrar stúlku sætir nú harðri gagnrýni fyrir að ala barnið upp á kartöfluflögum, súkkulaði, morgunkorni og Coca-Cola. Staðhæfir móðirin sem er 33 ára að hún fái ekkert við þetta ráðið og að stúlkan sé heilbrigð þrátt fyrir að hún vegi á við fjögurra ára barn. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.

„Ég hef reynt að gefa henni hollan mat en hún lítur ekki við honum,” segir móðirin Angela Boswell. „Hún bragðar einstaka sinnum á banana og jógúrt en neitar alveg að borða grænmeti. Hún tekur það upp og kastar því frá sér. Hún borðar helst kartöfluflögur. Ég borðaði mikið af kartöfluflögum með súkkulaðiídýfu á meðgöngunni þannig að kannski má rekja þetta til þess.”

Boswell, sem á fjögur eldri börn, segist þó ekki hafa neinar áhyggjur af þessu. „Ég held að þetta jafni sig þegar hún eldist. Ég hef engar áhyggjur. Fólk segir að hún sé þybbin af því að maginn á henni stendur svolítið út en þetta er bara ungbarnafita sem á eftir að renna af henni,” segir hún.

Fjallað verður um málið í sjónvarpsþættinum Britain's Biggest Babies sem sýndur verður á sjónvarpsstöðinni ITV1 síðar í þessari viku.

mbl.is