Íslendingar meiri frumkvöðlar en íbúar ríkja ESB

Íslendingar á aldrinum 55-64 ára eru tvisvar sinnum líklegri til ...
Íslendingar á aldrinum 55-64 ára eru tvisvar sinnum líklegri til að stunda frumkvöðlastarfsemi en þeir yngri mbl.is/ÞÖK
Rúmlega 12% Íslendinga á aldrinum 18-64 ára tóku þátt í frumkvöðlastarfsemi á síðasta ári, en að meðaltali tæplega 6% af íbúum Evrópusambandsins, samkvæmt nýrri rannsókn Global Entrepreneurship Monitor (GEM). Niðurstöður rannsóknarinnar byggja á gögnum frá 42 löndum og hefur Háskólinn í Reykjavík tekið þátt í rannsókninni fyrir Íslands hönd frá árinu 2002. 

Eldra fólk frekar í frumkvöðlastarfsemi en yngra

Þátttaka kvenna í frumkvöðlastarfsemi eykst aftur eftir að hafa farið minnkandi undanfarin ár. Þrátt fyrir það eru karlar ennþá rúmlega tvisvar sinnum líklegri en konur til að stunda frumkvöðlastarfsemi.

Einstaklingar í aldurshópnum 55-64 ára á Íslandi eru tvisvar sinnum líklegri til að stunda frumkvöðlastarfsemi en einstaklingar í aldurshópnum 18-24 ára. Þetta er þveröfugt við samanburðarlöndin þar sem yngra fólk er líklegra til að stunda frumkvöðlastarfsemi en eldra fólk, samkvæmt tilkynningu.

Á Íslandi er háskólamenntað fólk u.þ.b. jafn líklegt og fólk með grunnskólapróf til að stunda frumkvöðlastarfsemi. Þetta er svipað mynstur og í Bandaríkjunum, en í löndum Evrópusambandsins er háskólamenntað fólk næstum því tvisvar sinnum líklegra til að stunda frumkvöðlastarfsemi en þeir sem aðeins hafa grunnskólamenntun.

Horfa meira til útlendra viðskiptavina

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu og íbúar á landsbyggðinni eru jafn líklegir til að stunda frumkvöðlastarfsemi.

Æ fleiri frumkvöðlar á Íslandi selja vörur og þjónustu að mestu leyti til erlendra viðskiptavina. Árið 2002 var þetta hlutfall 10% en í fyrra var það komið í 15%. Rannsóknin leiddi ennfremur í ljós að frumkvöðlar á Íslandi byggja starfsemi sína í meira mæli á viðskiptum við útlönd en frumkvöðlar annarra landa.

Íslenskir frumkvöðlar eru bjartsýnir. 20% þeirra gera ráð fyrir því að hafa fleiri en 20 starfsmenn á sínum snærum að fimm árum liðnum. Þetta hlutfall er um tvisvar sinnum hærra en í löndum Evrópusambandsins.

70% íslensku þjóðarinnar á aldrinum 18-64 ára töldu mörg tækifæri til að stofna fyrirtæki á seinni hluta síðasta árs og hafa þessar væntingar Íslendinga farið sívaxandi frá árinu 2002. Væntingar íbúa í samanburðarlöndunum hafa á þessu sama tímabili vaxið mun minna eða jafnvel minnkað.

mbl.is
Þreyttur á geymslu- ólykt í ferðavagni.
Eyðir flestri ólykt. Ertu búinn að sækja bílinn úr vetrargeymslu, er ólykt í bíl...
EIGUM ALLSKONAR STIGA Á LAGER
Einnig sérsmíði, sjáið úrvalið t.d. á: www.sogem-stairs.com/en_home-home.php L...
Vatnsaflstúrbínur -Rafalar-Lokar
Útvegum allar stærðir af túrbínum rafölum og lokum fyrir virkjanir. Holt Véla...