Norðurpóllinn íslaus í september?

Hafís við Norðurpólinn.
Hafís við Norðurpólinn. Morgunblaðið/Einar Falur

Hugsanlegt er að íslaust verði um tíma á Norðurpólnum í september, samkvæmt útreikningum sérfræðinga við vísindastofnunina  National Snow and Ice Data Center í Boulder í Colorado í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

„Það er nokkurs konar veðmál í gangi um það innan stofnunarinnar hvort Norðurpóllinn verði íslaus í sumar, og það eru alveg líkur á því," segir Mark Serreze, háttsettur vísindamaður innan stofnunarinnar. „Líkurnar eru 50-50 á því að þunnur heimskautaísinn, sem var frosinn síðastliðið haust, muni nú þiðna á Norðurpólnum sjálfum."     

Serreze segir ísinn hafa þiðnað jafnt og þétt síðastliðna áratugi vegna hækkandi lofthita en að óútreiknanleg veðurkerfi muni þó ráða því hvort ísinn þiðni alveg að þessu sinni.

Þá segir hann að þótt Norðurpóllinn sé bara venjulegur staður á jörðinni hafi hann táknræna merkinu í hugum fólks. „Það á að vera snjór á Norðurpólnum. Verði enginn snjór þar í lok sumars verður það mjög táknræn breyting," segir hann.

 Serreze segir einnig að þrátt fyrir að um fyrirsjáanlega þróun hafi verið að ræða hafi það komið sérfræðingum mjög á óvart hversu hratt ísinn hafi þynnst á undanförnum árum. „Fyrir fimm árum hefði verið óhugsandi að ímynda sér að ísinn á Norðurpólnum gæti þiðnað fyrir sumarlok. Mér hefði aldrei dottið slíkt í hug," segir hann.

„Hefðirðu spurt mig eða einhvern annan vísindamann þá hefðum við sagt þér að hugsanlegt væri að allur ísinn á Norðurpólnum myndi þiðna að sumarlagi á árum 2050 til 2100. Fyrir nokkru endurskoðuðum við þessar spár og sögðum slíkt hugsanlegt í fyrsta lagi árið 2030. Nú er talað um að það verði jafnvel enn fyrr. Þannig að hlutirnir eru að gerast mjög hratt þarna uppi."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert