Tengsl á milli þunglyndis og unninna matvæla

Vísindamennirnir segja að þeir sem borða mikið af ávöxtum og …
Vísindamennirnir segja að þeir sem borða mikið af ávöxtum og grænmeti sé síður líklegri að glíma við þunglyndi, heldur en þeir sem borða lítið af slíku fæði. mbl.is/Árni Sæberg

Breskir vísindamenn halda því fram að þeir sem borða mikið af unnum matvælum auki líkurnar á því að greinast með þunglyndi. Líkurnar séu hins vegar mun minni hjá þeim sem borði mikið af grænmeti, ávöxtum og fiskmeti.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að vísindamenn við University College í London hafi borið saman upplýsingar um mataræði 3500 miðaldra einstaklinga, sem séu allir opinberir starfsmenn, við tíðni þunglyndis fimm árum síðar.

Vísindamennirnir skiptu þátttakendunum í tvo hópa miðað við mataræði þeirra. Í fyrri hópum voru þeir sem borðuðu aðallega óhreinsað fæði, s.s. ávexti, grænmeti og fisk. Í seinni hópnum voru þeir sem borðuðu aðallega unnin matvæli, t.d. eftirrétti með mikið af sætuefnum, djúpsteiktan mat, unna kjötvöru og mjög feitar mjólkurvörur.

Þættir eins og kyn, aldur, menntun, hreyfing viðkomandi, reykingar og sjúkdómar voru teknir með í reikninginn. Vísindamennirnir komust að því að mataræðið hefði mikið um það að segja hvort viðkomandi myndi glíma við þunglyndi í framtíðinni.

Líkurnar á því að þeir sem borðuðu mikið af ávöxtum, fiski og grænmeti myndu glíma við þunglyndi mældust vera 26% minni heldur en hjá þeim sem borðuðu minnst af slíku fæði.

Til samanburðar má nefna að þeir sem borðuðu mikið af unnum matvælum voru 58% líklegri að greinast með þunglyndi heldur en þeir sem borðuðu mjög lítið af slíku fæði.

Þeir segja að þetta sé fyrsta rannsóknin sem skoðar mataræði Breta og þunglyndi. Niðurstöðurnar eru birtar í British Journal of Psychiatry.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert