Eplið var á hvolfi fyrir notandann

Einn af stofnendum Apple, Steve Wozniak, með Powerbook þar sem …
Einn af stofnendum Apple, Steve Wozniak, með Powerbook þar sem eplið fræga er á hvolfi.

Eitt sinn sneri hið þekkta kennimerki Apple öfugt á fartölvunum fyrirtækisins þegar þær voru opnar. Því var breytt eftir nokkur ár en nú hefur fyrrverandi starfsmaður hjá Apple, Joe Moreno, útskýrt á bloggsíðu sinni hvernig á þessu stóð.

Moreno útskýrir að fjölmargir starfsmenn Apple hafi ekki skilið af hverju eplið fræga væri á hvolfi þegar tölvurnar væru opnar. Hann segir hönnunarteymið hjá Apple hafa rætt fram og til baka hvernig eplið ætti að snúa. Ef það snéri rétt við notandanum áður en hann opnaði tölvuna, þá væri það á hvolfi þegar hún væri opin, og öfugt.

Forstjóri Apple, Steve Jobs heitinn, vildi hinsvegar leggja áherslu á tölvunotandann og að hann upplifði tölvuna á sem allra bestan hátt og því var ákveðið að það snéri rétt við notandanum.

Þessu var þó breytt nokkrum árum síðar. Moreno útskýrir að tölvunotandi sé aðeins örfáar sekúndur að átta sig á því að hann sé að reyna að opna tölvuna frá rangri hlið en það að fólk sjái kennimerkið alltaf á hvolfi skapi vandamál sem öllu lengri tíma taki að leysa.

mbl.is

Bloggað um fréttina