„Er ekki að útrýma sálfræðingastéttinni“

Dr. Fjóla Dögg Helgadóttir, klínískur sálfræðingur sem starfar við rannsóknir …
Dr. Fjóla Dögg Helgadóttir, klínískur sálfræðingur sem starfar við rannsóknir við Oxford háskóla. www.ai-therapy.com

Algengt er að fólk fái ekki meðferð við hæfi þegar það leitar til meðferðaraðila. Því getur fylgt talsverður kostnaður fyrir samfélagið. Talið er að á milli 7 - 12% fólks þjáist af félagsfælni og feimni og nú hefur Fjóla Dögg Helgadóttir, íslenskur sálfræðingur við Oxford-háskóla hannað tölvuforrit sem ætlað er til meðferðar fólks með félagsfælni. Hún segir árangurinn góðan og kostnaðinn brot af hefðbundinni sálfræðimeðferð.

„Það hafa verið gerðar fjölmargar rannsóknir undanfarin 30 ár og út frá þeim vitum við hvað gerist í huga fólks sem er með félagsfælni og feimni. Við vitum hvað þarf til þess að meðferð virki. En líkurnar á því að fólk fái meðferð sem virkar þegar það fer til sálfræðings eða læknis, eru mjög litlar, því það er svo erfitt að koma rannsóknarþekkingunni inn á sálfræðistofurnar,“ segir Fjóla, sem vinnur við sálfræðimeðferðir og rannsóknir við Oxford-háskóla í Englandi. „Við erum að brúa þetta bil með meðferðinni okkar.“

„Það sem við höfum gert er að safna saman þúsundum rannsókna á félagsfælni og feimni og skrifa meðferðir út frá þeim fyrirfram. Þetta er meðferð, sniðin að þörfum hvers og eins.“

Félagsfælni hefur ýmis einkenni

Meðferðin kallast AI-therapy og á vefsíðu hennar segir að félagsfælni og feimni geti verið afar þrálát, sé aðstoðar ekki leitað. Einkennin geti t.d. verið óhóflega miklar áhyggjur af því hvað öðru fólki finnist, að kvíða því að hitta nýtt fólk, að reyna að komast hjá því að taka þátt í samræðum eða  hafa miklar áhyggjur af mistökum sem gerð hafa verið eða hugsanlega munu vera gerð.

Fjóla segir að áður hafi verið boðið upp á sálfræðimeðferðir í gegnum tölvu, en sérstaða AI-therapy.com sé að þar er meðferðin persónuleg og unnið er í áttina að því að nýta gervigreind í tölvum.

En hvernig gengur þetta fyrir sig? Segjum sem svo að einstaklingur telji sig vera feiminn og með félagsfælni og vilji ráða bót á því með því að fara í gegnum meðferð á síðunni ykkar.  Hvernig ber hann sig að? „Hann byrjar á því að svara fjölda spurninga, rétt eins og gerist þegar fólk leitar í fyrsta skipti til sálfræðings. Út frá þeim svörum ákveður forrit meðferð fyrir viðkomandi. Inni í henni eru t.d. hljóðupptökur sem eiga við þau svör sem notandinn gefur upp,“ segir Fjóla.

Miðað við sex mánaða meðferð

Hún nefnir dæmi um einstakling sem á erfitt með að eiga samskipti við yfirmann sinn í vinnunni.

„Hann fengi meðferð þar sem t.d. væri lögð áhersla á að þjálfa hugsanir tengdar því að tala við yfirmanninn og síðan fengi viðkomandi verkefni þar sem hann ætti að prófa sig áfram við að reyna að komast yfir það að geta ekki átt þessi samskipti sem hann langar til að eiga. Það sem prógrammið gerir líka er að búa til eins einstaklingsmiðuð módel og hægt er. Til dæmis er unnið með reiði sem fólk finnur oft fyrir í tengslum við félagsfælni.“
Fjóla segir að miðað sé við að meðferðin taki sex mánuði, en fólk geti unnið verkefnin á þeim tíma sem það henti þeim og það sé að meðaltali að koma 19 sinnum inn í prógrammið á tímabilinu.

Hvað segja kollegar þínir við þessu? Ertu ekki að útrýma sálfræðingastéttinni með þessari tölvumeðferð? „Ég hef kynnt AI-Therapy á ráðstefnum út um allan heim undanfarin ár og ég hef fengið  þessa spurningu. En mitt svar við henni er að fólkið sem leitar til sálfræðinga er bara minnihluti af þeim sem þjást af sálfræðilegum vandamálum. Þannig að þetta verður bara til þess að vekja fólk til vitundar um hvað það er til mikið af ýmsum vandamálum. Fæstir þeirra sem eru með félagsfælni eða önnur sálfræðileg vandamál fá meðferð einhvern tímann á ævinni. En auðvitað er svona meðferð ekki fyrir alla og það hentar örugglega mörgum betur að fara á stofu til sálfræðings. Þetta eru einfaldlega auknir möguleikar á meðferð.“

Tugþúsundir Íslendinga eru með félagsfælni

Meðferðin hefur hlotið afar góðar viðtökur að sögn Fjólu og eru notendur víða að úr heiminum. Hún segir alla þá, sem hafa farið í gegnum meðferðina, segjast ná árangri.

Af hverju völduð þið að veita meðferðir við þessu en ekki einhverju öðru? „Félagsfælni er ótrúlega algeng, en talið er að á milli 7% og 12% fólks þjáist af henni. Þetta þýðir 22.330- 38.280 Íslendinga, en reyndar hafa íslenskra rannsóknir sýnt hærra hlutfall, eða allt að 17%.  Að auki eru sterk tengsl við almennan kvíða og þunglyndi. Þetta er eitt af þeim vandamálum sem margir búa við og ef fólk fær ekki meðferð þjáist það af þessu alla ævi. Margt eldra fólk, sem hefur farið í gegnum meðferðina, segist óska þess að það hafi tekið af skarið fyrr; að það hefði getað átt líf án félagskvíða. Það er svo gefandi að vinna með fólki sem hefur læknast af félagsfælni og sjá það öðlast nýtt líf.“

Hluti af störfum Fjólu við Oxford-háskóla er að vinna með helstu sérfræðingum heims við að búa til tölvuforrit til að þjálfa sálfræðinga og aðra meðferðaraðila til að meðhöndla sjúklinga með anorexíu, búlimíu og þunglyndi. „Það eru ekki nema 7% líkur á því að sjúklingur með búlimíu, sem leitar til læknis fái meðferð sem sýnt er að geti hjálpaði og sé byggð á rannsóknum,“ segir Fjóla.

Hún vísar þarna í tölur frá Bandaríkjunum og segir rannsóknir á þessu ekki hafa verið gerðar á Íslandi, en ekki sé ólíklegt að svipaðar niðurstöður kæmu í ljós hér.

Hún segir að í bígerð séu tölvumeðferðir fyrir fólk með almennan kvíða, áráttu og þráhyggju. Getur svona meðferð hentað fyrir fleiri geðræna kvilla? „Já, það eru miklir möguleikar. En framtíðin er óskrifað blað.“


www.ai-therapy.com
Fjóla og samstarfsmaður hennar hjá AI-Therapy, Ross G. Menzies,
Fjóla og samstarfsmaður hennar hjá AI-Therapy, Ross G. Menzies, www.ai-therapy.com
mbl.is

Bloggað um fréttina