Setja stefnuna á Evrópu

Mynd sem könnunarfarið Galíleó tók af Evrópu. Þó að ískalt …
Mynd sem könnunarfarið Galíleó tók af Evrópu. Þó að ískalt sé á Evrópu er talið undir skorpunni gæti verið að finna fljótandi vatn vegna flóðkrafta af völdum nálægðarinnar við gasrisann Júpíter eða vegna gosvirkni. NASA

Stuðningur við könnunarleiðangur til Evrópu, ístungls Júpíters, fer vaxandi en nokkrir áhrifamiklir þingmenn á Bandaríkjaþingi hafa undanfarið hvatt til þess að tunglið verið rannsakað nánar. Vísindamenn telja að Evrópa sé besti staðurinn sem menn geta leitað að lífi utan jarðarinnar.

Nokkrir þingmenn úr vísinda-, geim- og tækninefnd og fjárveitinganefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings voru viðstaddir opinn fund The Planetary Society í Washington-borg í síðustu viku sem bar heitið „Freisting Evrópu“ þar sem fjallað var um rannsóknir á ístunglinu.

Lamar Smith, þingmaður repúblíkana frá Texas og formaður vísinda-, geim og tækninefndarinnar, sagði á fundinum að hann óskaði þess að heimsbyggðin gæti sé hversu spenntir fundargestir væru fyrir þessu tungli Júpíters en fullt var út úr dyrum.

„Það er að því virðist almennur áhugi á geimnum á meðal bandarísku þjóðarinnar,“ sagði Smith

Vísindamenn telja að undir frosinni skorpu Evrópu sé að finna þrisvar til fjórum sinnum meira magn af fljótandi vatni en á jörðinni. Hugsanlegt sé jarðhita að finna á sjávarbotninum og að geislun frá Júpíter geti skapað aðstæður þar sem líf gæti mögulega kviknað.

Könnun Evrópu sett í forgang

Samfélag reikistjörnuvísindamanna hefur sagt að könnunarleiðangur til Evrópu ætti að vera forgangsverkefni en fjárveitingar til þess hafa verið skornar niður til að fjármagna mætti rannsóknir á Mars og mannaðar geimferðir.

Áhugi á rannsóknum á Evrópu hefur hins vegar aukist aftur, ekki síst eftir að menn náðu myndum með Hubble-geimsjónaukanum af því sem virðist vera gosvirkni á yfirborði tunglsins. Þá hafa líkur verið leiddar að því að flekahreyfingar eigi sér stað í skorpu þess. Hvoru tveggja bendir til þess að tengsl séu á milli yfirborðsins og hafsins fyrir neðan.

Hingað til hefur verið talið að til þess að rannsaka hafið þyrfti könnunarfar að geta borað sig niður í gegnum skorpuna til að komast að því. Það væri ekki aðeins tæknilega flókið og erfitt í framkvæmd heldur þyrfti að fara ákaflega varlega til að forðast að menga hafið með örverum frá jörðinni sem gætu borist með geimfarinu. Sé það hins vegar rétt að efni úr hafinu komist upp á yfirborðið með gosvirkni eða flekahreyfingum þá gæti það auðveldað rannsóknir á því til muna.

„Það er okkar starf að tryggja það að nægilegar fjárveitingar fáist til þess að fjármagna þessa spennandi leiðangra,“ sagði John Culberson, þingmaður repúblíkana á fundinum um Evrópu. Möguleg uppgötvun manna á lífi utan jarðarinnar myndi móta siðmenningu manna.

Gæti gerst um miðjan næsta áratug

Bandaríkjaþing hefur veitt 115 milljónum dollara til þess að kanna fýsileika leiðangurs til Evrópu á undanförnum tveimur árum. Hvíta húsið hefur veitt 15 milljónum til viðbótar til þess á fjárlögum næsta árs. Fulltrúar bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA segjast vonast til þess að geta hleypt leiðangri til Evrópu af stokkunum um miðjan næsta áratug. Kostnaðurinn gæti numið um milljarði dollara. Til samanburðar má nefna að dýrustu Hollywood-kvikmyndir sögunnar hafa kostað fjórðung til þriðjung af þeirri upphæð.

Miðað við núverandi forsendur myndi slíkur leiðangur fela það í sér að könnunarfar flygi nokkrar ferðir fram hjá Evrópu til þess að afla upplýsinga um mögulega lendingarstaði fyrir lendingarfar í framtíðinni.

Frétt á vefnum Space.com um aukinn áhuga á Evrópu

Grein á Stjörnufræðivefnum um Evrópu

Tölvuteiknuð mynd sem sýnir könnunarfarið Galíleó sem rannsakaði Júpíter og …
Tölvuteiknuð mynd sem sýnir könnunarfarið Galíleó sem rannsakaði Júpíter og fylgitungl hans frá árinu 1995. Í forgrunni er tunglið Íó. NASA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert